Helga Kristín Torfadóttir
Einstakur tími fyrir eldfjallafræðing!
Helga Kristín Torfadóttir er eldfjallafræðingur og doktorsnemi. Hún heldur úti Instagram síðunni @geology_with_helga.
Það er svo sannarlega ekki leiðinlegt að vera eldfjallafræðingur þessa dagana!
Helga Kristín heiti ég og er 28 ára jarðfræðingur. Ég er að klára doktorsnám í eldfjalla- og bergfræði þar sem ég rannsaka risann Öræfajökul að innan. Ég skoða hvernig kvikurnar úr eldstöðinni hafa hagað sér fyrir gos ásamt að kanna á hvaða dýpi kvikuhólfin og kvikupokarnir eru undir eldstöðinni.
Ástríða mín fyrir vísindum og náttúru spratt ansi snemma. Þegar ég var lítil voru áherslunar til að byrja með á risaeðlum og sólkerfinu. Þegar ég var að klára grunnskóla og í upphafi menntaskólagöngunnar kynntist ég jarðfræði. Ég gleymi ekki fyrsta jarðfræðitímanum sem ég sat í MR þar sem ég uppgötvaði að þarna væri fagið sem ég ætti heima í. Þar komu saman öll mín helstu áhugasvið undir einum hatti; allt frá útivist, ævintýrum, ljósmyndun, náttúru, heimspeki og vísindum. Jarðfræðin hefur veitt mér fjölda skemmtilegra tækifæra svo sem að prófa nýjasta geimbúning NASA (hannaður af Michael Lye), við krefjandi aðstæður á Vatnajökli, en búningurinn er ætlaður í fyrstu mönnuðu geimferðina til plánetunnar Mars. Ég er til dæmis sú fyrsta í heiminum sem hefur stundað ísklifur í geimbúningi.
Ég elska að vera úti í náttúrunni allan ársins hring og tek með mér myndavélabúnað hvert sem ég fer. Nýlega opnaði ég Instagramreikninginn @geology_with_helga þar sem ég sýni frá ævintýrum mínum í náttúrunni og fræði um jarðfræðina þar á bak við.
Sem jarðfræðingur, og hvað þá eldfjallafræðingur, veit ég að náttúran okkar er óútreiknanleg og kemur manni sífellt á óvart þar sem eldgos er alltaf yfirvofandi. Því kemur sér vel að vera skipulagður, sérstaklega þegar byrjar að gjósa nánast í bakgarðinum hjá manni.
Ísland er ekki kallað land elds og íss að ástæðulausu.
Hér mæta stórfenglegir jöklar okkar innvolsi jarðar, sem gerir það að verkum að Ísland er jarðfræðilega einstakt á heimsvísu.
Ef við lítum á heildarmyndina, þá er Ísland landmassi á Mið-Atlantshafshryggnum. Ástæðan fyrir því afhverju land geti byggst upp þar sem tveir úthafsflekar aðskiljast er með hjálp möttulstróks sem er staðsettur undir Íslandi. Þaðan fáum við allt efnið sem knýr eldvirknina sem við þekkjum. En þar sem úthafshryggurinn kemur upp á land á Reykjanesi flækjast málin. Hér á sér stað gliðnun milli Norður Ameríku- og Evrasíuflekans sem veldur því að veikleikar verða í landinu með tilheyrandi sprungumyndunum, misgengi og ílöngum eldstöðvakerfum. Það er nokkuð auðvelt að rekja flekaskilin í gegnum landið þegar horft er á landakorti af Íslandi, því að eldgosin raða sér upp á þessum sprungum og misgengjum og mynda röð hryggja.
Vegna þessara gliðnunar hafa því myndast sex eldstöðvakerfi á Reykjanesi. Jarðsagan segir okkur að um leið og eitt eldstöðvakerfi vaknar til lífsins fylgja hin eftir, eins og orðatiltækið ,,þegar ein kýrin pissar er annarri mál“. Því eru sterkar líkur á að við stöndum frammi fyrir nýju virknistímabili á Reykjanesi út frá núverandi gosi, þar sem við getum átt von á fleiri eldgosum á næstunni á hinum eldstöðvakerfunum.
Stærsta spurningin núna er, hversu lengi varir þetta gos? Það er flókin spurning því að við vitum ekki fyrir víst hvað er í gangi í jarðskorpunni. Til dæmis vitum við meira um yfirborð tunglsins heldur en um okkar eigin sjávarbotn. Stutta svarið við spuringunni, sem er einnig klassískt svar, er að við vitum ekki hvað þetta gos mun vara lengi. Flókna svarið við spurningunni er að þetta gos gæti varað í áratugi eða jafnvel aldir. Jarðeðlisfræðileg og jarðefnafræðileg gögn sýna fram á að núverandi gos gæti hugsanlega verið dyngjugos. Það eru nokkrar dyngjur á Reykjanesi en slíkt gos hefur ekki átt sér stað í 7000 ár.
Þetta gos gæti varað í áratugi eða jafnvel aldir
Dyngjur eru mjög stórar og rúmmálsmiklar og myndast yfir 30, 40, 50 eða jafnvel 150 ár, sem er langur tími á mennskan mælikvarða. Við erum með margar dyngjur út um allt land sem mynduðust flestar eftir að síðasta jökulskeiðinu lauk fyrir 10-11 þúsund árum. Til dæmis eru Skjaldbreiður, Trölladyngja og Ok klassískar dyngjur, sem og Kilauea á Hawaii.
Þó þær séu plássfrekar og miklar virðast dyngjurnar ansi saklausar í fjarlægð vegna 8° hallans sem gefur þeim nánast flatt yfirborð. En ekki láta það blekkja þig því frá botni og upp á topp eru þær oftast yfir 1000 m. Stærsta dyngjan sem við þekkjum er Ólympusfjall (Mt. Olympus) á plánetunni Mars sem er 21 km há, meira en tvöfalt hærri en stærsta fjall jarðar, Mt. Everest. Ef svo vildi til að þú ætlir að klífa Ólympusfjall myndir þú ekki taka eftir því útaf flatneskjunni.
Ef við förum aftur í tímann, þegar hámark síðasta jökulskeiðs var fyrir um 25 þúsund árum, lá yfir Íslandi einn risa meginjökull sem var um 210 þúsund km2. Þar sem flatarmál Íslands er 103 þúsund km2 gefur auga leið að sá jökull var um tvöfallt stærri en landið okkar og lá langt út í sjó. Ímyndaðu þér allan þennan þunga og þrýsting á skorpunni, það hefur ekki verið auðvelt fyrir kvikur að leita til yfirborðsins. Um leið og síðasta jökulskeið lauk fyrir 10-11 þúsund árum, fengu þessar kvikur mikið tækifæri, enda höfðu þær verið að bíða í skorpunni ansi langan tíma. Í kjölfar þess að megin jökullinn hörfaði varð mikil eldvirkni og því mynduðust margar dyngjur.
Í núverandi gosi við Fagradalsfjall vitum við að kvikan er að koma djúpt úr iðrum jarðar, frá um 20 km dýpi sem eru mörkin milli jarðskorpunnar og möttulsins á úthafsskorpum. Því gæti verið að gosið eigi inni fullt af efni þarna niðri og að nokkurskonar naflastrengur sé þaðan upp á yfirborð. Einnig er töluverður svipur með efnasamsetningu gossins og efnasamsetningu eldri dyngjanna á Reykjanesi. Gosið gæti að sjálfsögðu hætt hvenær sem er en fyrst við sjáum vísbendingar um að dyngjugos sé fyrir hendi gæti það haldið áfram með hléum. En það er sjálfsagt of snemmt að segja til um það.
Stóra spurningin er af hverju dyngjugos núna?
Jafnvel þótt margt bendi til þess að núverandi gos á Reykjanesi gæti verið dyngjugos er stóra spurningin af hverju núna? Það er ekki eins og við séum að lyfta þungu jökulfargi af skorpunni, líkt og við lok síðusta jökulskeiðis. Kannski er einfaldlega bara kominn tími á dyngjugosi?
Á meðan við lifum í óvissunni er lykilatriðið að njóta eldgossins og dást að náttúruöflunum sem Móðir Náttúra hefur upp á að bjóða. Þó við skiljum alltaf betur hvernig hún hegðar sér kemur hún manni sífellt á óvart.