Rut Sigurðardóttir og Kristján Torfi Einarsson
Saga af strandveiðivertíð
Rut Sigurðardóttir og Kristján Torfi Einarsson eru par sem eru mörgum hæfileikum gædd. Þau keyptu sér bát og stunda saman strandveiðar.
Það er farið að líða á seinni hluta ágústmánaðar og strandveiðitímabilinu nýlokið. Góð sumarvertíð að baki en sumarið er ekkert á förum og fjölskyldan nýtir blíðuna til að fiska í frystikistuna heima fyrir veturinn. Öllum finnst gaman úti á sjó og mikil spenna, óp og köll, þegar fiskur bítur á krók. Þegar kemur að því að verka fiskinn, blóðga, slægja og flaka, er áhuginn mismikill. Sumir segja “ojbarasta” og hverfa af dekkinu eins og dögg fyrir sólu. Sumir láta sig hafa það. En þau yngstu ráða sér ekki fyrir kæti og eru blóðug upp fyrir haus og með slor í hárinu.
Brosið var ekki jafn breitt í byrjun sumars og alls ekki jafn bjart yfir mönnum í upphafi vertíðarinnar. Þegar sigla átti af stað frá Hafnarfirði norður á Snæfellsnes í maí sl. og hefjast handa kom í ljós að vatnsdæla vélarinnar var biluð og báturinn stopp.
Sár vonbrigði, sér í lagi eftir alla vinnuna og peninga sem farið höfðu í að gera allt klárt um veturinn. Nýtt rafmagn og rafmagnstafla og búið að leggja í töluverðar plastviðgerðir og mála allt hátt og lágt. Brúnin léttist ekki við að heyra að biðin eftir nýrri dælu yrði allavega tvær vikur. Þegar fréttir bárust af mokfiskeríi, einmuna blíðu og fiskverði í hæstu hæðum má segja að stemmningin hjá okkur strandveiðiparinu á kæjanum hafi verið rafmögnuð.
Bátinn keyptum við síðasta sumar og skírðum hann Skuld.
Bátinn keyptum við síðasta sumar og skírðum hann Skuld. Þetta er svokallaður Víking 700 bátur, tæplega 8 metra súðbyrðingur, sígild íslensk trilla af fyrstu kynslóð íslenskra plastbáta, tæplega 30 ára gömul. Ég, Kristján Torfi, hef verið á sjó frá unga aldri og gegni stöðu skipstjóra um borð, á meðan Rut heldur utan um mig og bátinn og sér til þess að öll leyfi séu til staðar og reikningum og skýrslum séu gerð skil á réttum tíma, ásamt því að vera háseti.
Við fengum bátinn ódýrt og ekki að ástæðulausu. Eiginlega var allt komið á tíma. Þá hafði hann staðið óhreyfður á landi í nokkur ár, en fátt fer verr með báta en notkunarleysi. Okkur tókst þó að halda honum úti í sautján daga síðasta sumar, með herkjum, þar sem við gerðum út frá Flateyri á Vestfjörðum. Í vetur fóru því drjúgur tími og peningar í að koma Skuld í stand.
Uppáhald sjómannsins
Hönnun byggð á arfleifðinni
Allt er þegar þrennt er og fall er fararheill.
Dælan kom fyrir rest og út var siglt í annað sinn. Stefnan tekin á Arnarstapa sem húkir undir jökli í 50 sjómílna fjarlægð. Skuld er hæggengur bátur með litla vél og að öllu eðlilegu hefði siglingin átt að taka 8 tíma. Ríflega hálfum sólarhring síðar erum við dregin vélavana til hafnar á Arnarstapa.
Allt er þegar þrennt er og fall er fararheill. Í þriðju tilraun sigldi Skuld ein og óstudd í land á Rifi. Eftir þrjár rafmagnaðar vikur var fullum skammti landað, eða 774 kílóum af góðum þorski. Loksins. Þarna var líka tónninn sleginn því eftir þessa erfiða byrjun sló Skuld varla feilpúst, alltaf sigldi hún út og alltaf skilaði hún okkur aftur heim, oftar en ekki með fullan skammt í lestinni.
Strandveiðitímabilið hefst í maí og lýkur í ágúst þegar búið er að veiða þau 11 þúsund tonn af fiski sem eru í boði á tímabilinu. Veiða má 12 daga í mánuði en aðeins má róa frá mánudegi til fimmtudags. Hver veiðiferð má mest vera í 14 klukkustundir og að hámarki má hver bátur koma með 774 kg að landi í hverri ferð. Heildarafli sumarsins var 27 tonn sem þykir bara harla gott, en til samanburðar var meðalafli báta á okkar svæði 21 tonn í sumar.
Einn af hápunktum sumarsins var að kynnast Snæfellsnesi, sér í lagi þorpunum á utanverðu nesinu. Þetta var óvænt ánægja því upphaflega ætluðum við aðeins að staldra þar stutt við.
Landinu er skipt í fjögur svæði í standveiðikerfinu og við róum á svæði A, sem nær frá Snæfellsnesi út að Hornbjargi á Vestfjörðum. Þorskurinn byrjar að ganga upp á landgrunninn suður af landinu og á Reykjanesi fljótlega eftir áramót en færir sig norðar eftir því líður að vori. Veiðin er þannig mest á Snæfellsnesi í maí-mánuði en yfir hásumarið eru aflabrögð jafnan best út af Vestfjörðum. Planið okkar var að elta fiskinn norður og við reiknuðum með að róa mesta frá Patreksfirði eða Bolungarvík.
Óvenju góð veiði var hins vegar í Breiðafirði núna í sumar og þar að auki var fiskur á miðunum alla vertíðina. Þá var fiskverð mjög gott en því til viðbótar voru smábátar á utanverðu Snæfellsnesi ítrekað að fá hæsta verð á mörkuðum á landsvísu. Engin ástæða til að breyta því sem vel hefur reynst og því fór það óvænt þannig að Skuld var gerð út frá Rifi í allt sumar. Rif er frábær staður. Alvöru sjávarþorp með fjöldan allan af kvótasterkum útgerðum og þrátt fyrir að vera með minni byggðakjörnum landsins, eru starfræktar þrjár öflugar fiskvinnslur á staðnum. Þjónustan í landi var eftir því, allt fyrsta flokks og heimamenn boðnir og búnir að vera okkur innan handar í einu og öllu. Þá er er ekki amalegt að hafa Snæfellsjökul sem heimamið í lok dags, ef menn kunna á annað borð að meta rómantík. Þá er Breiðafjörður líka mekka íslenskrar bátamenningar. Ef íslenska trillan mætti velja sér heimahöfn yrði Breiðafjörður vafalaust fyrir valinu. Við útgerðarhjónin gátum í Íslendingabók rakið ættir okkar saman til Breiðafjarðar (í sjöunda og níunda lið, nota bene) og eftir sumarið erum við farin að gera okkur breið og tala fjálglega um okkur sem Breiðfirðinga þótt lítil innstæða sé fyrir því tilkalli okkar.
Heilt yfir frábært sumar að baki og mjög lærdómsríkt. Margir hápunktar og mikið hlegið og hvað allt brasið varðar og leiðinlega vesenið þá létum við það okkur að kenningu verða. Ekki bara vitum við meira um smábáta, strandveiðar og Snæfellsnes, heldur ekki síst um hvort annað. Núna veit ég t.d. að það á aldrei að vekja hásetann/útgerðarstjórann með köllum og látum. Ekki gera það, alls ekki.
Eini skugginn núna er kannski að tímabilið skuli ekki vera lengra og hversu langt er í ballið byrji á ný. Eitt er þó víst að í maí á næsta ári verðum við á Snæfellsnesi til í slaginn og vonandi aftur og aftur og aftur. Besta vinna í heimi.