Chris Burkard
Ferðalag niður jökulárnar
Hinn þekkti ljósmyndari Chris Burkard hefur ástríðu fyrir verndun íslensks hálendis.
Chris Burkard er heimsþekktur ævintýraljósmyndari sem hefur ástríðu fyrir Íslandi. Hann hefur ferðast vítt og breitt um landið undanfarinn áratug og hjá honum vaknað mikill áhugi fyrir því að fanga á mynd jökulárnar sem renna frá hálendinu alla leið til sjávar.
Ásamt rithöfundinum og ljósmyndaranum Matt McDonald hefur hann gefið út nýja bók, At Glacier's End.
At Glacier’s End fer með þig í ferðalag niður íslensku jökulárnar, frá upptökum til sjávar. Bókin geymir glæsilegustu loftmyndir ljósmyndarans Chris Burkard yfir næstum heilan áratug. Íslensku jökulárnar eru orðnar heimsþekktar, sem má að stórum hluta þakka þeirri ótrúlegu ástríðu sem Burkard hefur fyrir þeim. Loksins er hægt að finna allar bestu myndirnar hans frá Íslandi á einum stað í þessari fullkomnu bók. Matt McDonald fer einnig með lesandann í ferðalag niður árnar (í 10.000 orðum), þar sem hann setur þær í menningarlegt og umhverfislegt samhengi frá því þær mynduðust og til dagsins í dag. Þungaiðnaður hefur ógnað öllum stærstu ám Íslands undanfarna áratugi, en í dag er mikið starf unnið til að vernda þær, þar sem íslensk stjórnvöld fara fremst í flokki.
Hvar á landinu er þetta?
Chris deildi með okkur hugmyndafræðinni á bak við bókina:
„Náttúra Íslands hefur veitt mér svo mikla gleði undanfarinn áratug. Mér fannst ég skulda þjóðinni og náttúrunni það að búa til eitthvað sem sýndi fram á mikilvægi þessara óbyggða og hvaða hlutverki þær hafa gegnt í mínu lífi. Jökulár Íslands eru abstraktmálverk náttúrunnar. Manni finnst augljóst að það ætti að vernda svona magnaðar ár, en bitur veruleikinn er sá að margar hafa verið virkjaðar, aðallega til að knýja álver. Nú er í gangi mikið átak til að vernda þessar ár, en mun það takast? At Glacier's End veitir jökulám Íslands rödd, og setur þær í bæði menningarlegt og umhverfislegt samhengi, alla leið frá jökli til sjávar.“
Aðspurður segir hann að meðhöfundurinn Matt McDonald hafi gengið til liðs við útgáfuna vegna þess að hann líti á Ísland sem eitt af undrum jarðar.
„Náttúra Íslands á sér fáa eða engan sinn líka í heiminum. Kannski eiga Íslendingar erfitt með að meta einstakt landslagið sem verður til þegar eldfjöll og jöklar skapa þessar margbrotnu jökulár. Við höfum báðir ferðast um allan heiminn en erum enn agndofa yfir íslenskri náttúru. Við lítum á Ísland sem eitt af undrum jarðar.“
Í bókinni er fjallað um þær hættur sem steðja að íslenskri náttúru vegna sífellt meiri eftirspurnar eftir raforku í þungaiðnað, og hvernig fjölgun virkjana og stíflna ógnar framtíð íslenskra víðerna og jökuláa.
Verkefni um Hálendisþjóðgarð hefur verið sett á laggirnar, og er það gert í samstarfi margra helstu verndarsamtaka Íslands eins og Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands, þar sem markmiðið er að sameina og stækka þjóðgarðakerfið á Íslandi til að tryggja að allt hálendi Íslands njóti verndar. Stefnuyfirlýsing og markmið þeirra fela eftirfarandi í sér:
„Samtökin sem standa að baki þessari stefnuyfirlýsingu vilja ná eins mikilli samstöðu og hægt er um verndun miðhálendisins með því að stofna þjóðgarð sem yrði í eigu þjóðarinnar allrar. Við teljum að hálendisþjóðgarður verði merkasta framlag Íslands til náttúruverndar. Hann mun bæta og styrkja ímynd Íslands sem þjóðar sem styður vernd ósnortins lands og dýralífs og mun hafa í för með sér mikinn ávinning fyrir alla þá sem heimsækja Ísland sem og Íslendinga sjálfa. Þjóðgarðurinn verður griðastaður fyrir þá sem vilja njóta náttúrulegs umhverfis miðhálendisins og hafa gaman að útivist í óspilltri náttúru."
Miðhálendið er einn mesti fjársjóður Íslands, þar sem finna má eldfjöll, jökla, beljandi stórfljót og fossa, litrík jarðhitasvæði og leirhveri, víðáttumiklar hraunbreiður og svarta sanda, sem allt myndar magnaða andstæðu við berskjaldaða gróðurbletti á víð og dreif. Saman mynda þessi náttúruundur og ótrúlegt landslagið einhverjar víðáttumestu, ósnortnu óbyggðir í allri Evrópu. Kraftur þessara náttúruafla, þar sem á takast ís og eldur, skapar og mótar í sífellu hrikalegt og magnað landslag, þar sem ró og einangrun víðernanna gerir gesti agndofa og býr til ógleymanlega upplifun.
Að finna á einum stað svona ótrúlega fjölbreytt náttúruundur eins og lýst er hér að ofan er einstakt í veröldinni, sérstaklega þar sem svona stórum og óbyggðum svæðum, þar sem náttúran ein ræður ríkjum, fækkar stöðugt. Við Íslendingar erum í þeirri öfundsverðu stöðu að geta enn staðið vörð um þennan ómetanlega fjársjóð og verndað miðhálendið fyrir komandi kynslóðir.
Stofnun Hálendisþjóðgarðs hlýtur að hafa í för með sér að fallið verði frá áformum um frekari stíflur, raforkuver og raflínur á svæðinu. Auk þess er afar mikilvægt að komist sé að ásættanlegu samkomulagi um frekari uppbyggingu vega í þjóðgarðinum, sem ættu að þjóna ferðamennsku, hafa eins lítil umhverfisáhrif og mögulegt er, og falla inn í náttúrulegt umhverfi sitt."
Félagarnir nefna nokkrar af þeim hættum sem steðja að hálendi Íslands og þeir hafa orðið varir við á ferðum sínum um landið:
Chris:
„Íslendingar eru farnir að sjá hvaða verðmæti felast í náttúrunni og það óafturkræfa tjón sem stíflur og álver valda ám landsins og ég held að það sé þörf á varanlegri verndun. Hinn kosturinn er einnig hættulegur, því of mikill fjöldi ferðamanna getur haft álíka skaðleg áhrif. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir Ísland að gera framtíðaráætlanir varðandi sjálfbæra ferðaþjónustu. Það dugar ekki að leita skammtímalausna við langtímavandamálum.“
Matt:
„Stærsta ógnin við hálendi Íslands núna er ný vatnsorkuver vegna álframleiðslu, þar sem þau krefjast risastórra miðlunarlóna sem drekkja stórum hluta hálendisins og hafa áhrif á rennsli áa til sjávar. Á Íslandi fræddumst við um allar árnar sem hafa verið virkjaðar vegna álframleiðslu, og um umhverfisverndarhreyfinguna sem spratt upp úr Kárahnjúkavirkjun. Okkar fannst þetta því mikilvægur tími, eftir sprengingu í fjölda ferðamanna, til að skapa verk sem talaði máli þessara vatnsfalla, sérstaklega þar sem sterk efnahagsleg rök hníga að því að halda þeim óspilltum. Þegar við fréttum af baráttunni fyrir hálendisþjóðgarði töldum við að ljósmyndir okkar og orð gætu komið honum að gagni. Vandamál Íslands eru í hnotskurn þau sömu og fólk glímir við um allan heim: hvernig byggjum við upp samfélög í sátt og samlyndi við náttúruna? Báðum finnst okkur þetta svo heillandi spurning.“
Með því að deila þessari bók með 66°Norður og Íslendingum vonast Chris til þess að orðin og myndirnar frá erlendum ferðamanni geti varpað nýju ljósi á vernd hálendisins fyrir heimamenn.
„Það hefur aldrei verið mikilvægara að tala fyrir stofnun þjóðgarðs. Það þarf samstillt átak til að sýna öllum Íslendingum að þjóðgarður þurfi ekki að takmarka ferli heldur geti haft jákvæð áhrif á alla þegar á allt er litið, frá ferðamönnum til sjómanna og bænda. Markmiðið er að vernda landið fyrir stórfelldu tjóni með því að verja náttúruna fyrir framtíðina.
Fólk er mjög spennt fyrir því að styðja náttúrvernd á Íslandi og skilja betur langa og flókna sögu Íslands varðandi þungaiðnað, ferðaþjónustu og önnur mál. Ég held að markmiðið með því að gefa bókina út á Íslandi sé að deila sjónarhorni aðkomumanns á það hvað gerir landið einstakt. Eins og málshátturinn segir, glöggt er gests augað.“
Bókin verður gefin út á heimsvísu svo Chris vonar að myndirnar og orðin í At Glacier's End geti orðið fólki innblástur til þess að láta í sér heyra til þess að vernda íslenska náttúru:
„Fyrir utan það að Ísland býr yfir einhverjum óspilltustu víðernum sem eftir eru í Evrópu finnst mér fólk verða að tala máli þessara staða því þeir geta það ekki sjálfir. Vonin er sú að við náum að vernda Ísland fyrir komandi kynslóðir og sýna fram á þörfina fyrir þjóðgarð til þess að tryggja að dýrmætustu hlutar landsins verði ekki fyrir óbætanlegum skaða.“
At Glacier's End fæst nú í netverslun 66°Norður. Farðu hingað til að sjá allar Glacier Friday sögurnar okkar og á http://halendid.is/ til að fræðast betur um hálendisþjóðgarðinn.
Föstudagur fyrir jöklana okkar
Norður tímarit
„Mér finnst arfleifð 66°Norður eins geta staðið fyrir landið. Sú staðreynd að fyrirtækið var stofnað til þess að klæða sjómenn í verstu veðrum og stendur enn á bak við þá hugmyndafræði er ótrúleg. Vörumerkið stendur sig einnig frábærlega í því að segja magnaðar sögur af landsmönnum.“ — Chris Burkard
Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að vísindasamfélagið í heiminum vinni saman að lausnum til að kljást við losun koltvísýrings.
Systkinin Þorsteinn Roy og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir ólust upp með sérstakan bakgarð, Svínafellsjökul. Þau hafa fylgst með jöklinum minnka og þynnast með árunum sökum loftlagshlýnunar.
Fylgstu með NORÐUR sögum með því að skrá þig á póstlistann og fylgja okkur á Instagram