Eydís María Ólafsdóttir
Á hæsta tindi Íslands
„Ég fetaði í fótspor afa míns og toppaði Hvannadalshnjúk“
Ég man eftir því að hafa séð myndir af afa mínum uppi á Hvannadalshnjúk með vinum sínum þar sem þeir tóku með sér stóran stiga sem þeir komu fyrir á toppnum til þess að verða hæstir allra Íslendinga. Það að sjá þessar myndir af afa kveiktu þessa löngun til að komast þangað upp og loksins núna í ár fékk ég tækifæri til að láta þennan draum rætast.
Ég lagði af stað klukkan eitt eftir miðnætti að Falljökli þar sem ferðalagið hófst. Ég fann fyrir kvíða þegar ég vaknaði en um leið og ég tók fyrstu skrefin yfir jökulinn í kyrrðinni, þá hvarf hann með öllu.
Aðstæður litu vel út svo við ákváðum að fara óhefðbundna leið upp á toppinn yfir Virkisjökul og meðfram Hvannadalshrygg, sú leið bíður upp á ótrúlega fallegt útsýni alla leiðina upp.
Markmið okkar var að ná að komast upp á toppinn og niður aftur innan við 15 klst.
Við gengum meðfram Hvannadalshryggnum og eftir nokkrar klukkustundir fengum við stórbrotið útsýni yfir Svínafellsjökul. Þegar við nálguðumst Dyrhamar tók sólin á móti okkur og við sáum loksins topp Hvannadalshnjúksins.
Eftir að við nálguðumst 1500 metrana varð snjórinn dýpri og krafðist meiri orku eftir því sem leið á gönguna. Næsti kaflinn var svo 60 metra hátt ísklifur til að komast alla leið upp að Dyrhamri. Þegar þangað var komið breyttist veðrið svo skyggni varð lítið. Það var hins vegar svo stutt eftir að það var ekki hægt annað en að halda áfram.
Eftir Dyrhamar var skyggni lítið. Það var hins vegar svo stutt eftir að það var ekki hægt annað en að halda áfram.
Þessi persónulega áskorun sem ég hafði stefnt að í langan tíma varð að mjög tilfinningaríkri upplifun. Þegar við loks stóðum á toppnum rofaði til og eitt augnablik fengum við útsýni í allar áttir yfir Ísland. Ég leit í kringum mig og sá fyrir mér myndirnar af afa sem ég hafði skoðað frá því ég var lítil og við það að hafa náð þessum sama áfanga gat ég ekki annað en grátið gleðitárum.
Leiðin niður af hnjúknum var mjög erfið þar sem skyggni var ekkert, rigning og hávaðarok. Augnablikin þegar maður er í erfiðum aðstæðum og maður er við það að gefast upp er það sem gerir ferðir eftirminnilegar fyrir mig. Andlegir styrkleikar koma í ljós þegar þreyta fer að segja til sín og það er ótrúlegt hvað sú hlið getur verið sterk og komið manni langt.
Það eru margar ástæður fyrir því að ég sækist í fjallamennsku. Útsýni yfir ósnortna náttúru og að komast í virkilega einstakt umhverfi finnst mér algjör forréttindi og fær mig til að lifa í núinu. Þetta sport er nýtt fyrir mér en ég nota það til að ýta mér út fyrir þægindarrammann, þannig læri ég mest um sjálfan mig. Ég hef aldrei gengið niður fjall án þess að læra eitthvað nýtt.
Alveg sama hversu erfiðar sumar áskoranir geta verið á ákveðnum tímapunkt þá er maður fljótur að gleyma því um leið og maður er kominn niður af fjallinu. Þessar erfiðu stundir eru bara tímabundnar og svo hugsar maður, hvað næst?