Kormákur & Skjöldur
Samstarfið
Samstarf 66°Norður og Kormáks & Skjaldar er tileinkað íslenskum hestamönnum. Í áratugi hafa íslenskir hestamenn notað fatnað okkar allan ársins hring og því erum við stolt að kynna sérstaka útfærslu af Öxi jakkanum sem sameinar ólíka heima 66°Norður og Kormáks & Skjaldar. Samstarfið felur í sér endurgerð á Öxi Primaloft jakkanum þar sem sóttur er innblástur í munstur ullarjaka eða „tweed“ jakka sem einkennandi eru í línu Kormáks og Skjaldar og það sameinað tæknilegum efnum og nútímalegum stíl jakkans.
Kormákur & Skjöldur
Herrafataverslun Kormáks & Skjaldar var stofnuð í Reykjavík fyrir jólin 1996 af Kormáki Geirharðssyni trymbli og Skildi Sigurjónssyni matreiðslumanni. Árið 2006 opnaði herrafataverslunin í Kjörgarði, einni elstu verslanamiðstöð Reykjavíkur, eftir að hafa legið í dvala um nokkurra ára skeið. Vöruúrvalið tekur sérstaklega mið af klassískri klæðahefð, með áherslu á þykk og góð ullarefni og fatnað sem hentar vel til útivistar og frístunda á norðlægum slóðum. Aðal verslunarinnar hefur ætíð verið alþýðlegt skap eigenda hennar og starfsmanna og sú trú að enginn sé svo illa uppdreginn að ekki megi koma honum til bjargar.
"Hestar sem maður hefur þjálfað lengi verða miklir vinir manns"
Íslenski hesturinn
Íslenski hesturinn hefur verið okkar dyggasti þjónn og helsti fararskjóti í gegnum aldirnar og er órjúfanlegur partur af menningu okkar og sögu. Hann er ekki hár í loftinu miðað við mörg önnur hestakyn en aftur á móti er hann óvenju sterkbyggður, heilsuhraustur, þrautseigur og veðurþolinn. Íslenski hesturinn státar af jafnaðargeði og vingjarnlegu eðlisfari og fyrir það hefur hann aflað sér mikillar aðdáunar. Aftur á móti getur hann verið þrjóskari og óþekkari en aðrar hestategundir, enda ræktaður með það í huga að selflytja fólk sem kann ekki á hesta og verður því að vita sjálfur betur en knapinn hvað rétt sé og hvert ferðinni sé heitið.
Steinunn Arinbjarnardóttir hefur verið umkringd hestum allt sitt líf. Satt að segja, svo lengi sem hún man hefur hún ástundað hestamennsku. Áhugi hennar kviknaði þegar móðir hennar kynnti hana fyrir íþróttinni, en fljótlega fóru öll sumur í að keppa á mótum og temja hesta á hestabúgörðum. Í dag fer mestur tími hennar í leiklistarnámið, en þrátt fyrir það finnur hún alltaf tíma til að ríða út sér til skemmtunar.
Öxi Primaloft jakki
Öxi jakkinn sameinar sérhæfni 66°Norður í framleiðslu á vönduðum hlífðarfatnaði og hönnun Kormáks og Skjaldar á reiðfatnaði. Jakkinn tryggir góða einangrun fyrir reiðmenn sem takast þurfa á við hvers kyns íslenskt veður.