Eldgos í Vestmannaeyjum

„Þetta reddast“

Myndband og ljósmyndunBjörn Steinbekk
TextiBjörn Steinbekk
Staðsetning63°44’12” N, -20°27’28” W

Þann 23. janúar árið 1973, hófst gos í Heimaey sem kom öllum að óvörum, þar sem eldstöðin var talin vera óvirk. Nú, 50 árum síðar, lítum við til baka á þennan merka atburð sem mótað hefur lífið í Eyjum.

50 ár frá goslokum

Fátt er íslenskara en setningin “Þetta reddast“ og á fáum stöðum á þetta betur við en í Vestmannaeyjum þar sem harðgerð náttúran, sjóræningjar, ótal skipsskaðar og eldgos í túnfæti bæjarins hefur mótað viðhorf og reynt á æðruleysi þeirra sem eyjuna fögru byggja og elska.

Það eru þessir atburðir sem skapa ákveðna ímynd um Vestmannaeyjar og fólkið sem þar býr. Fólkið sem náttúruöflin hafa sent þolraunir ýmiskonar og þar sem húmor, oft illskiljanlegur þeim sem ekki þekkja til, er notaður til að létta lund og brjóta upp stundir sem reyna á þolgæði og lífsgleði.

Í Eyjum eru engin vandamál, bara lausnir og glasið alltaf hálft eða barma fullt. Skiptir engu hvort það sé að snara upp nokkrum fótboltamótum á hverju sumir og taka móti þúsundum manns eða fylla Dalinn með glöðum landkröbbum, Eyjameyjum og sveinum í takti við landsins bestu listamenn. Allir leggjast á eitt og úr verða minningar sem lifa með fólki um aldur og ævi í einstakri umgjörð og fegurð.

Fátt hefur reynt meira á þetta æðruleysi eyja kvenna og karla en gosið í Heimaey sem hófst þann 23. janúar 1973 og lauk 3.júlí sama ár. Aldrei áður á seinni tímum hafði eldgos hafist í byggð eða bæ á Íslandi. En með fumlausum viðbrögðum, samtakamætti og einstöku hugarfari fólksins í Eyjum tókst að flytja rúmlega 5.000 manns frá Heimaey og koma þeim í skjól upp á landi. Segja má að þessa nótt reddaðist ótrúlega margt.

Það er þarna sem lífið er yndislegt, lundinn litar himinninn á sumardegi og úteyjarnar kasta ævintýrablæ á sjóndeildarhringinn.

Vestmannaeyjar er einstakur staður. Þar er ótrúlegt úrval veitingastaða sem hver og einn hefur sína sérstöðu og á sumum sést, í einstakri matargerð, ást kokksins á eyjunum fallegu og hafinu sem þær umlykur og hvað þaðan er hægt að sækja til að skapa rétti þar sem sérstaða þessa samfélagsins í Eyjum skín í gegn – frumleiki og sjálfsbjargarviðleitni.

Þarna kallast líka á klettarnir, björgin, eldfjöllin og sjórinn í einstakri fegurð. Það er þarna sem lífið er yndislegt, lundinn litar himinninn á sumardegi og úteyjarnar kasta ævintýrablæ á sjóndeildarhringinn.

Það að fyrir 50 árum síðan hafi meira en 400 hús brunnið eða horfið undir hraun og ösku í Eyjum og konur og menn staðið vaktina við að bjarga húsum, munum, minningum og höfninni um veturinn, vorið og sumarið segir okkur að þrátt fyrir hvað sem kann að bjáta á, muni þetta reddast!

Versla

Nýjar vörur