RAX
Heimildir um breytingar
2022
„Ég horfi á nýtt landslag verða til í hverri ferð. Jöklarnir eru að hopa og þynnast og það kemur nýtt land undan þeim.“ Ljósmyndarinn RAX, Ragnar Axelsson, hefur myndað fólk og náttúru á norðurslóðum í fjóra áratugi. Hann hefur séð umhverfið taka miklum breytingum á þessum tíma og hvernig hlýnandi loftslag hefur áhrif á líf fólks í norðrinu.
Verðum að gefa íbúum norðurslóða rödd
Ljósmyndarinn RAX, Ragnar Axelsson, hefur myndað fólk og náttúru á norðurslóðum í fjóra áratugi. Hann hefur séð umhverfið taka miklum breytingum á þessum tíma og hvernig hlýnandi loftslag hefur áhrif á líf fólks í norðrinu.
„Ég horfi á nýtt landslag verða til í hverri ferð. Jöklarnir eru að hopa og þynnast og það kemur nýtt land undan þeim. Maður sér þetta best á Sólheimajökli og Kötlujökli. Ég flýg oft þar yfir; fer svolítið alltaf sama rúntinn. Og ég ætla að halda áfram að gera það reglulega því það er nauðsynlegt að dókumentera þessar breytingar. Ekki bara á landslaginu heldur á högum fólksins sem býr á norðurslóðum. Líf þeirra er að breytast svo mikið.“
„Núna er ég að fara í gegnum 20-30 ára gamlar myndir sem ég er að skanna og vinna úr. Og þá sér maður breytingarnar svo vel. Sagan er að verða til fyrir augunum á okkur. En það er engin stefna rekin hjá Íslandi þegar kemur að því að eiga söguna til. Öll hin Norðurlöndin eru með 50-80 ljósmyndara bara í því að dokúmentera samtímann. Ísland er með núll. Þannig að ég er bara að gera þetta upp á eigin spýtur.“
Þetta hverfur allt, það er útséð með það!
Þetta hverfur allt
„Það eru auðvitað aðrir í svipuðum pælingum. Oddur Sigurðsson jarðfræðingur skráir þetta vel og samviskusamlega. Ólafur Elíasson hefur gert þetta vel í sínum verkum. Hann er náttúrulega í svo mörgu öðru en ég held að þessu verkefni hjá honum, sem er mjög mikilvægt, sé ekki lokið. Við gerum þetta á mjög ólíkan hátt. Ég nálgast þetta meira eins og ljóðabók. Þetta hverfur allt, það er útséð með það, en samt er heilmikil saga þarna. Ef þú borar í jökulinn þá sérðu upplýsingar langt aftur í tímann.“
„Aðalmálið að fara til fólksins sem býr við þessar breytingar og leyfa því að tala og gefa því röddina sem það hefur ekki. Það talar enginn við þau. Þau eru kannski sett upp á svið í þjóðbúningum og látin dansa. En rödd þessa fólks lifir miklu lengur en allar ræður á einhverjum ráðstefnum. Það eru í mínum huga hálfgerðar rugludallasamkomur og sýndarmennska. Það er ekki skilningur á mikilvægi þess að skrásetja lífið á norðurslóðum í myndum og texta. Það hjálpar til við að opna augu fólks annars staðar á jörðinni fyrir raunveruleikanum. Þannig að maður reynir að sætta sig við þessar breytingar og vonar það besta.“
2019
Heimildir um breytingar
RAX ljósmyndari hefur myndað fólk og náttúru á norðurslóðum í fjóra áratugi. Hann hefur séð þetta umhverfi taka miklum breytingum á þessum tíma og hvernig hlýnandi loftslag hefur áhrif á líf fólks í norðrinu. Við hittum RAX fyrst árið 2019 til að ræða þessar breytingar og mikilvægi þess að festa þær á filmu fyrir komandi kynslóðir.