Hin Flatey

Words and PhotographyBjörk Brynjars
Location66°09'53.5"N 17°51'32.4"W

Eftir langa hljóða vetur boða fuglarnir vorið einn af öðrum þegar þeir flykkjast til eyjarinnar til sumardvalar.

Það er miður ágúst og þó sólin sé enn hátt á lofti eru skörp árstíðarskipti í vændum á Flatey í Skjálfanda. Skiptin eru mörkuð með komu og hvarfi fuglanna sem síðastliðin 50 ár hafa verið einu íbúar eyjunnar sem liggur ber og óvarin norðan við landið. Eftir langa hljóða vetur boða fuglarnir vorið einn af öðrum þegar þeir flykkjast til eyjarinnar til sumardvalar. Fuglasöngurinn verður háværari og fjölbreyttari með hverjum deginum sem líður og orkestran varir út allt sumarið, eða til ágústmánaðar þegar hún hljóðnar á svo gott sem einum degi við það að fuglinn fari. Þá er ekkert nema þögnin og vetur konungur framundan.

En fuglinn er ekki farinn og veðrið er gott. Það er laugardagskvöld og við móðir mín sitjum vafðar í björgunarvesti í RIB bát sem þýtur yfir Skjálfanda í átt að Flatey. Stefán Guðmundsson hjá Gentle Giants hefur góðfúslega lofað okkur mæðgum að fá að fljóta með á leið starfsmanna fyrirtækisins á Fiskidaginn mikla á Dalvík það kvöldið. Þegar eyjan nálgast er okkur boðað að gera okkur klárar til að fara frá borði í flýti, enda bíður fjörið á Dalvík ekki eftir neinum. 

Við hoppum á valta flotbryggjuna, grípum bakpokana sem kastað er til okkar og horfum á eftir bátnum sigla á brott jafn fljótt og hann kom. Eftir stöndum við mæðgur, einar í kvöldsólinni með gargandi kríuna allt í kringum okkur. Byggð var í Flatey allt frá 12. öld til ársins 1967 þegar síðustu fimm fjölskyldurnar fluttust á brott. Alla tíð voru fiskveiðar aðalbjargræði og auðlind eyjamanna, þó landbúnaður og síðar fleiri atvinnuvegir væru stundaðir jafnhliða. Ekkert samfélag getur þó haldist gangandi nema endurnýjun eigi sér stað og kom að lokum að því að Flatey lagðist í eyði. Eftir standa tóm húsin, fuglasöngurinn og minningar þeirra sem þarna ólust upp. 

Níu ára á sjó

Einn þeirra sem geyma þessar minningar er Hermann Ragnarsson. Hermann er fæddur 1951 og fluttist úr Flatey til Húsavíkur þegar eyjan fór í eyði 1967. „Manni þykir kannski vænst um að hafa lifað þennan tíma af,“ segir hann og hlær aðeins. Níu ára gamall byrjaði hann á sjó og réri þá með föðurbróður sínum, Jóni, allt sumarið á tveggja tonna trillu sem hét líka Hermann. "Þetta var mikið uppáhaldsnafn í Flatey, afi hét Hermann og við vorum fimm barnabörnin sem deildum nafninu.“ Hermann segir Flateyinga alltaf hafa verið taldir mjög ríkir, enda fiskaðist vel. "Stína frænka talaði alltaf um að það hafi verið mjög vinsælt að komast í vinnu hjá Hermanni afa því hann borgaði svo vel. Þetta voru náttúrulega flest allt hans barnabörn en það var þannig að ef maður mætti á svæðið, sama hvað við vorum gamlir, þá fengum við borgað."

Við erum fljótar að slá upp tjaldi við gömlu smiðjuna á suðurhluta eyjunnar og leggjum svo í stutta göngu í rauðglóandi kvöldsólinni. Eftir stutta stund sjáum við hvar fjórhjól kemur rúllandi í átt til okkar. Á hjólinu situr Ingi Sveinbjörnsson frá Húsavík, sem síðastliðin ár hefur staðið í miklu viðhaldi og endurbyggingu nokkurra húsa í eyjunni. Ég hafði áður sett mig í samband við Inga sem ásamt fjölskyldu sinni heimsækir eyjuna hvað mest. Það er ákveðin ró yfir honum og jarðtenging sem ég geri ráð fyrir að eyjan hljóti að veita manni beint í æð.

Ása á Grund

Á vesturhluta eyjunnar stendur stæðilegt timburhús sem ber nafnið Grund. Ása Dagný Hólmgeirsdóttir ólst þar upp fyrstu 16 ár ævi sinnar, eða þar til fjölskyldan flutti úr Flatey árið 1961. Á Grund bjuggu þau sjö systkinin, tveir afar, ein amma og svo bættust stundum vinnukonur í hópinn en móðir hennar sá um heimilið á meðan pabbi gerði út tvo báta. Þarna var allt unnið á handaflinu og Ása minnist þess að yfir sumartímann hafi verið bakað á hverjum degi til að nesta mennina fyrir sjóinn. "Það var svo þannig að við þekktum vélarhljóðin í bátunum og þegar við heyrðum í þeim koma hentumst við af stað niður á bryggju. Það var alltaf fjör á bryggjunni á kvöldin þegar samfélagið safnaðist saman að verka fiskinn“. 

Flateyjardalur

Frá Flatey er útsýnið gott yfir í Flateyjardal (og öfugt) sem liggur í um þriggja kílómetra sjóleið frá eyjunni. Dalurinn lagðist í eyði 1953 en á um 40 ára tímabili fyrir það þurftu Flateyingar að sækja guðsþjónustu sjóleiðis yfir í dalinn þar sem engin kirkja var í eyjunni. Það var vegna erfiðra
samgangna sem Flateyjardalur fór í eyði en þar er afar snjóþungt á veturnar og heiðin einungis jeppafær á sumrin. Þessa dagana er þar allt krökkt af aðalblá- og krækiberjum svo maður getur setið límdur við jörðina klukkutímum saman á meðan tungan og varirnar blána í berjaátinu.

Við mæðgur skríðum inn í tjald laust fyrir miðnætti og sofnum við sönginn og gargið í fuglunum sem hljóðnar ekkert alla nóttina. Um miðja nótt vöknum við við að jörðin undir okkur rykkist til þegar skjálfti sirka 3 stig á richter ríður yfir. Flatey er einmitt í Skjálfanda sem ber nafnið vegna tíðra skjálfta og jarðhræringa á svæðinu. Morguninn eftir hafa veður skipast og ský eru farin að safnast saman yfir okkur. Við hittum Inga um tíu leitið og hann röltir með okkur um og segir okkur sögur af svæðinu. Maður finnur það sterkt hversu vand með farin saga svona lítillar eyju er. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við ekki meira en mannleg, með alla okkar bakpoka og tilfinningar. Ingi sýnir okkur líka samkomuhúsið og vitann og það sést að vinna hefur verið lögð í að gera upp ýmis hús á eyjunni, þó alls ekki öll og sum meira en önnur.

Um hádegisbil hefjumst við handa við að hlaða bátinn hans Inga og leggjum í hann í átt að Húsavík. Dvölin var stutt en mikið ævintýri engu að síður, enda eitthvað magnað við að vera á stað á Íslandi sem ferðamannaflóðið er enn ekki farið að sækja í. Þegar við siglum úr höfninni sést hvar lundinn undirbýr flug í átt að vetrardvöl sinni. Og nánast alla leiðina að Húsavík má sjá hvali synda í kringum okkur, enda svæðið þjóð-, ef ekki heimsþekkt fyrir ótrúlegt lífið í flóanum. 

Hverju skal klæðast

Uppáhalds flíkur Bjarkar