Ragúel Hagalínsson
Hornstrandir 66.45°N
Hornstrendingar stunduðu að mestu sjálfsþurftarbúskap, það voru engar vegasamgöngur og veturnir oft svo harðir að bátar komu ekki að landi svo vikum skipti.
Hornstrandir. Afskekktasti staður Íslands. Byggð var á Hornströndum öldum saman. Þar bjó harðgert fólk sem sótti sjóinn á litlum bátum, tíndi fuglsegg úr björgum og hélt nokkrar kindur og kýr. Hornstrendingar stunduðu að mestu sjálfsþurftarbúskap, það voru engar vegasamgöngur og veturnir oft svo harðir að bátar komu ekki að landi svo vikum skipti.
Það var bæði tímafrekt og kostaði mikla vinnu að sækja hluti annars staðar frá. Í einni sögu segir af manni sem gekk 30 kílómetra leið með eldavél á bakinu um fjallaskarð að vetrarlagi. Eldavélin var afmælisgjöf til móður hans. Hornstrendingar reiddu sig ekki mikið á umheiminn.
Eftir 1930 breyttist margt. Íbúar fengu vitneskju um önnur störf og þar með ný tækifæri annars staðar á landinu. Með árunum tíndust Hornstrendingar annað og árið 1959 flutti síðasta fjölskyldan burt. Sumar af þessum fjölskyldum komu aldrei aftur — þær gengu frá fyrra lífi og skildu húsin sín eftir þar sem þau eyðilögðust og hrundu að endingu. Aðrir hafa snúið aftur í heimahagana á sumrin og þannig leyft komandi kynslóðum að kynnast lífinu á hjara veraldar.
„Ég kom hingað fyrst árið 1994 eða sama ár og ég fæddist og hef komið á hverju sumri síðan“ segir Ragúel Hagalínsson leiðsögumaður, útivistarmaður og landvörður á Hornströndum yfir sumartímann. Forfeður hans bjuggu hér svo kynslóðum skipti. Amma hans fæddist og ólst upp í Hornvík en flutti ásamt foreldrum sínum og átta systkinum til Ísafjarðar þegar hún var ung kona.
Ættaróðalið Stígshús hefur verið í eigu stórfjölskyldunnar síðan þá og er mikið notað og nýjar kynslóðir Hornstrendinga hafa lært að njóta einangrunar og stórbrotinnar náttúru frá unga aldri. „Þegar ég var unglingur fannst mér ekki mikið varið í að koma hingað en þegar ég fullorðnaðist lærði ég að meta hversu frábær þessi staður er. Ég er þakklátur fyrir að tilheyra söguarfleifð ættarinnar og hafa aðgang að þessu húsi.“
Vegna þess hve erfitt getur verið að komast á Hornstrandir á veturna eru ekki margir sem stunda skíði í Hornvík. Húsin í víkinni eru einungis þrjú, Stígshús og tvö önnur. „Mér þætti ekki leiðinlegt að sanka að mér dósamat og dvelja hér löngum stundum að vetrarlagi. Einn daginn verður það kannski að veruleika.“
Vistum er flogið á staðinn og eru þær látnar falla niður úr flugvél, en lendingarstaðurinn er í átta kílómetra fjarlægð í fjörunni þegar sjávarstaða er hagstæð. Það fyrsta sem maður gerir þegar maður kemur er að kveikja upp í rekavið í viðareldavélinni. Þrátt fyrir að Ísland sé fremur fátækt af skógi vantar aldrei timbur á Hornströndum þar sem nægur rekaviður kemur á land alla leið frá Síberíu með hjálp hafstrauma. Hér áður fyrr taldist það mikil búbjörg að eiga jörð þar sem nægan við rak á land. Viðurinn var notaður til þess að byggja bæði hús og báta, auk þess að halda hita á fólki yfir langa vetrarmánuði.
Ragúel er stundum eina manneskjan á margra ferkílómetra svæði. Hann notar daginn til þess að skíða í kringum Hornbjarg og næturnar eru fagurlýstar af bjarma norðurljósa. „Það er æðislegt að vera hérna í algjörri einsemd. Fjarri bílum, daglegum verkum og ábyrgð. Það eina sem ég þarf að hugsa um er hvað ég eigi að hafa í kvöldmatinn. Lífið er einfalt. Það er magnað.“
Í auðninni halda vökul augu íslenska refsins honum félagskap, en refurinn sá er eina innfædda landspendýr Íslands. Hvergi í heiminum eru jafnmargir refir á eins litlu svæði og í Hornvík. Í björgunum vinna ritur og teistur að hreiðurgerð á klettabrúnum og undirbúa varp. Þrátt fyrir langa og harða vetur er iðandi náttúrulíf í Hornvík.
Nokkrum sinnum hafa ísbirnir sést á Hornströndum, sá síðasti árið 2011. Ísland er ekki heimavangur fyrir ísbirni en þó kemur fyrir að þeir komi til lands með rekaís frá Grænlandi og standi þannig undir sínu latneska heiti „Ursus Maritimus“ sem útleggst „sæbjörn“ á íslensku. Þrír menn úr ætt Ragúels heimsóttu Hornvík þann 19. júní árið 1963 í þeim tilgangi að veiða fugl og tína egg í björgunum en ráku augun í eitthvað stórt og hvítt í fjörunni. Atvikið er skráð á veggi Stígshúss.
Fyrir mann eins og Ragúel sem kemur oft og iðulega til Hornstranda til þess að dvelja um lengri eða skemmri tíma skiptir öllu máli að klæða sig vel. „Ímyndið ykkur bara hvernig þetta var í gamla daga - Hornstrendingar skörtuðu skóm úr lambaskinni, á þessum stað þar sem þoka liggur oft yfir og rignir dögum eða vikum saman. Tilkoma gúmmístígvéla eftir aldamótin 1900 var sannkölluð bylting en það var ekki síður mikill sigur þegar nútímaleg efni sem anda urðu fáanleg. Réttur búnaður gerir það að verkum að dvölin hér er ekki einungis lífsreynsla heldur jafnframt ánægjuleg upplifun.“