Helga Hvanndal
Einvera í vitanum
Landvörðurinn Helga Hvanndal hefur starfað á afskekktum stöðum víðsvegar um landið. Hún segir okkur frá því þegar hún bjó ein í Dyrhólaeyjarvita og þeirri tilfinningu sem hún upplifði við ferðalög sín um óbyggðir Íslands.
„Þögnin verður ávanabindandi. Sumum finnst hún óþægileg en mér finnst hún huggandi.“
Eftir skiptinám í Berlín þar sem Helga lærði heimspeki var komið að því að finna sér vinnu. Vinkona hennar benti henni á starf landvarðar og áður en hún vissi af var hún flutt út á land og byrjuð að vinna.
„Þetta var mjög stór áskorun fyrir mig. Ég var ung og nýútskrifuð úr heimspeki þegar ég ákvað bara að læsa mig inni á einhverri eyju, alein, í nokkra mánuði.
Bara ég og fuglarnir. En ég hugsaði með mér að þetta yrði áskorun fyrir mig sem einstakling og hafði ekki hugmynd um að ég myndi sækja í að koma hingað aftur á sama stað, ár eftir ár.“
Helga Hvanndal er borgarbarn sem varð óvart náttúrubarn. Hún er uppalin í
Vesturbænum, útskrifuð úr heimspekideild HÍ og leggur nú lokahönd á mastersritgerðina sína í umhverfis- og auðlindafræði. Síðastliðin sex ár hefur Helga varið mestum tíma sínum í Dyrhólaeyjarvita þar sem hún bjó og starfaði sem landvörður.
„Landverðir eru að vinna í þjóðgörðum eða á friðlýstum svæðum. Við erum að reyna að vera tengiliðir við náttúruna og ferðamenn. Þetta eru allt staðir sem eru mjög sérstakir og hafa því verið friðaðir. Þar af leiðandi eru þetta mjög spennandi áfangastaðir fyrir ferðamenn.
Það þarf að finna góðan milliveg milli þess að fólk nái að njóta sín og skoða að vild þessa fallegu staði en jafnframt að reyna að hafa stýringu á því hvert fólk fer og hvernig það upplifir svæðin. Bæði geta það verið hættulegar aðstæður en einnig geta viðkvæm undirlendi skemmst ef það er of mikill ágangur fólks.“
Ég kvaddi yfirmann minn og læsti mig inni á eyjunni. Ég velti fyrir mér í hvað ég væri eiginlega búin að koma mér.
Dyrhólaey er vinsæll áfangastaður ferðafólks enda býður svæðið upp á einstaka upplifun þar sem hægt er að sjá brimið skella á dröngunum og fylgjast með fjölbreyttu fuglalífi. Eyjan var friðlýst árið 1978 af íslenska ríkinu til að vernda svæðið og halda því í sinni náttúrulegu mynd. Landvörður er með búsetu á svæðinu allt árið um kring og sér um innviði, verndun náttúrunnar og fræðslu til gesta. Dyrhólaeyjarvitinn var reistur árið 1927 og sá Guðjón Samúelsson arkítekt um frumhönnun vitans.
„Af öllum stöðum sem ég hef verið á síðastliðin sex ár hef ég verið mest á Dyrhólaey. Ég er á stöðugu flakki vegna vinnunnar. Ég man mjög vel eftir því fyrsta daginn minn þegar yfirmaðurinn kom með mér að sýna mér svæðið. Það var aftakaveður þrátt fyrir að það væri sumar og hann þurfti að flýta sér að komast heim áður en veginum yrði lokað. Ég kvaddi yfirmann minn og læsti mig inni á eyjunni. Ég velti fyrir mér í hvað ég væri eiginlega búin að koma mér. Daginn eftir varð gott veður og það var allt annar karakter í svæðinu. Allt breyttist, öll nálægðin og orkan var miklu jákvæðari. Mér leið strax vel.“
Helga hefur verið dugleg að ljósmynda þessa mögnuðu staði frá ferðalögum sínum í vinnunni og deilir þeim með fylgjendum sínum á Instagram.
„Þetta er orðinn partur af vinnunni, að finna einstaka staði og festa þá á mynd.“
Hún segir frá því þegar hún álpaðist eitt sinn ein upp á heiði og varð fyrir einstakri upplifun, þar sem hún upplifði náttúruna og töfra hennar.
„Ég fór í fjallgöngu sem var miklu lengri en ég bjóst við og var komin ein lengst upp á fjöll. Það var farið að rökkva þegar að ég áttaði mig á því að ég væri bara alein. Ég varð skyndilega meðvituð um öll náttúruöflin í kringum mig og upplifði mig svo ótrúlega litla. Það var allt svo mikilfenglegt að ég varð uppnumin. Ég varð alveg hrædd líka. Og líka þögnin. Þetta er skrýtið en hún verður ávandabindandi. Sumum finnst hún óþægileg en mér finnst hún huggandi. Þess vegna sæki ég í þetta starf aftur og aftur. Það eru þvílík forréttindi að vera í aðstæðum sem vinnan býður upp á. Ég get ekki hætt.“