Arnar Logi Hákonarson

Á sjó

Words and PhotographyArnar Logi Hákonarson

Ég var háseti á skipinu Júlíus Geirmundsson ÍS 270. Skipið fer frá Ísafirði, en er gert út frá HG í Hnífsdal.

Háseti

Háseti er sá sem sér um að veiða fiskinn og vinna hann frá því hann kemur um borð í trollinu, allt þangað til hann er kominn í kassa niður í lest. Hásetar sjá um að taka á móti fisknum og flokka hann samkvæmt tegund og þyngd. Þeir skera hann, taka beinin, og pakka honum ofan í öskjur, frysta hann og setja hann svo niður í lest þar sem hann er geymdur þangað til skipið er komið í land.

Þeir laga einnig netin ef þau rifna, þrífa vélarnar og vinnsluna þegar þess þarf og sinna í raun alls kyns tilfallandi verkefnum.

Þetta var ekki mitt fyrsta skipti úti á sjó, en það er samt sem áður alltaf frekar skrautlegt. Þú ert staddur á skipi með 24 öðrum karlmönnum og kemst ekki eitt né neitt næstu 30 dagana.

Það eina sem maður sér er sjóndeildarhringurinn allt í kringum sig og mávar fljúgandi um.

Vaktirnar

Það fer rosalega eftir vöktum og dögum hvort að maður kunni vel við sig þarna eða ekki. Bara eins og með svo margt annað í lífinu.
Suma daga ætlarðu aldrei aftur út á sjó af því þú hugsar að þetta sé það leiðinlegasta sem þú hefur gert en suma daga er þetta bara mjög fínt. Þú setur bara iPodinn í eyrun, hlustar á góða tónlist eða góða hljóðbók og gerir það sem þú átt að gera - hvort sem það er að skera eða pakka.

Svoleiðis líða dagarnir, ekkert nema rútína.

Vaktirnar eru 8 tímar í senn. 8 tímar í vinnu og 8 tímar í fríi, og á milli vaktanna er hálftími í mat. Í frívöktunum er yfirleitt bara sofið eða horft á myndir og þætti. Það er til staðar rækt, sauna klefi, heitur pottur og Playstation tölva um borð og maður styttir sér bara stundirnar með því eins og maður vill.

Túrarnir eru yfirleitt í kringum 30 daga í senn og skipið er yfirleitt ekki lengur í landi en upp í 5 daga. Það er óskrifuð regla að það sé sólarhringur í landi á móti viku úti á sjó. Ef það eru 4 vikur úti á sjó eru það 4 sólarhringar í landi.

"Það eina sem maður sér er sjóndeildarhringurinn allt í kringum sig og mávar fljúgandi um."

"Fastur" úti á sjó

Að vera „fastur“ með sömu einstaklingunum úti á sjó í þennan tíma getur eflaust verið krefjandi. Í mínu tilfelli hefur það verið allt í lagi. Menn fíla auðvitað hvorn annan mismikið en það er ekkert annað í stöðunni en að reyna að láta hlutina virka.

Þegar 25 karlar koma saman í þennan tíma skapast svona skrítin stráka stemning sem erfitt er að útskýra. Menn skjóta af og til á hvorn annan í stríðni og þá verður maður bara að vera ákveðinn í að skjóta til baka til að verða ekki fórnalamb. Þetta er alls ekki einelti en þetta eru bara þessi „sjómannastrákalæti“ sem erfitt er að útskýra fyrir þeim sem ekki hafa reynslu af.

Þetta getur verið virkilega líkamlega erfið vinna, sérstaklega þegar það er leiðinda veður. Þá þarftu auðvitað að sinna þinni vinnu ásamt því að reyna að halda þér kyrrum þegar allt annað er úti um allt, fram og til baka.
Eins þegar trollið er híft og látið út í leiðinda veðri. Þá þurfa menn uppi á dekki að sinna þeirri vinnu ásamt því að passa sig að falla ekki út í sjó. Menn eru ávallt í líflínum uppi á dekki, en maður veit aldrei hvað getur gerst.

Það getur líka verið andlega erfitt að vera í burtu frá fólkinu sínu, og ég tala nú ekki um ef eitthvað gerist heima fyrir. Þá er ekkert hlaupið að því að stökkva í land og maður getur ekkert gert, annað en að klára dagana sem eftir eru. Sjómenn hafa oft lent í slíkum aðstæðum og ég ímynda mér að það getur tekið virkilega mikið á andlega.

Þetta er samt sem áður mjög gefandi vinna og ég held að þetta sé hollt fyrir alla að prófa. Sjávarútvegur er jú ein af þeim atvinnugreinum sem menn hafa stundað allt frá því að Ísland var fyrst byggt. Þetta er einnig líkamlega gefandi vinna, maður verður hraustari ef eitthvað er, og ég held að maður kunni að meta allt sem er heima fyrir betur en maður gerði.

Eins hrikalegur og stórhættulegur og sjórinn getur verið, þá getur hann líka verið rólegur og fallegur. Að standa í stafni skipsins og hafa ekkert nema sjó, himinn og hugsanir sínar fyrir framan sig getur verið hrikalega róandi, þægilegt, og gott fyrir alla.