KALEO
Íslenska hljómsveitin KALEO, sem kemur frá Mosfellsbæ, er þekkt um allan heim fyrir sín ofsafengnu riff og drafandi raddbeitingu. Jökull Júlíusson hefur leitt hljómsveitina í myndbandstökum sem sýna perlur í íslenskri náttúru.
Náttúrurokk
Íslenska hljómsveitin KALEO, sem kemur frá Mosfellsbæ, er þekkt um allan heim fyrir sín ofsafengnu riff og drafandi raddbeitingu. Jökull Júlíusson hefur leitt hljómsveitina í myndbandstökum sem sýna perlur í íslenskri náttúru. Jökull er alls ekki ókunnur náttúrunni þar sem hann þýtur um jökla í sínum frítíma. Hljómsveitin sækir innblástur frá öllum formum náttúrunnar eftir að hafa tekið upp á ólíkum stöðum; allt frá hinum veðurbarða Þrídrangavita að Fjallsárlóni með sínu ísbláa jökulvatni. Á síðasta ári náði KALEO athygli heimsbyggðarinnar með myndbandi sem var tekið upp með eldgosið í Fagradalsfjalli í bakgrunni.
66°Norður ræddi við framlínumanninn Jökul um ævintýri hennar á sviði, íslenska náttúru og hvernig nafn hans hefur haft áhrif á hann. Það er alveg sama hversu þekkt hljómsveitin verður; íslensk náttúra verður alltaf hluti af Jökli og hinum strákunum, hvort sem þeir eru að fara á svið í Santiago eða Little Rock.
Söngvari og lagahöfundur
Jökull Júlíusson
Til að byrja með; er einhver staður á Íslandi sem þú heldur sérstaklega mikið upp á?
Ég held alltaf mikið upp á Mosfellsbæ en ég elska að ferðast um landið. Ég ferðast um Ísland alltaf þegar ég hef tækifæri til. Hálendið er svo einstakt og ég hef notið þess að fara í snjósleðaferðir upp á jökla síðustu ár.
Það má ímynda sér að það sé miklu auðveldara að taka upp myndbönd í stúdíói frekar en að vera úti í náttúrunni. Hvaðan koma hugmyndirnar og hvatningin fyrir þessum myndböndum?
Klárlega. Þetta eru mjög krefjandi verkefni sem þarfnast mikils undirbúnings. Oft þá höfum við haft þessar ótrúlega spennandi stundir og ævintýri sem hugmyndir í kollinum í langan tíma áður en við förum í tökur. Við höfðum meiri tíma fyrir svona verkefni meðan á faraldrinum stóð þannig að okkur tókst að nýta þann tíma vel.
Hverjar eru erfiðustu aðstæður sem þið hafið upplifað í tökum?
Ég myndi segja tökurnar við Fjallsárlón. Við vorum með tvo rafala á bátum sem sigldu í kringum ísjaka sem við vorum á og leiðslur undir vatninu upp á ísjakann. Bátarnir voru fullir af myndavélum og við vorum með hljóðmanninn okkar þarna líka. Veðrið var vont og það rigndi á okkur allan daginn. Ísjakinn bráðnaði undir okkur og snerist endalaust þannig að hann var ansi óstöðugur. Það var kraftaverk að okkur skuli hafa tekist að ljúka tökum. Veðrið getur verið óútreiknanlegt og það er oftast erfiðasti hlutinn.
Eru einhverjar sérstaklega eftirminnilegar stundir við tökur?
Við tókum upp myndband við Þrídrangavita um miðjan júlí í steikjandi sól. Verkefnið tók alls 28 klukkustundir og 16 þyrluferðir. Við vorum allir sólbrenndir eftir daginn þar sem enginn hafði hugsað út í að taka með sólarvörn!
Ég man hvað ég hef alltaf verið hrifinn af Kríu-lógóinu, alveg frá því ég var lítill
Hvarflar einhvern tíma að þér hugsunin, þegar þið eruð að spila á troðfullum leikvangi í Arizona: „Hvernig lentum við hérna? Við erum bara hljómsveit frá Íslandi?“
Já, ekki spurning. Stundum þarftu að stoppa sjálfan þig af og líta til baka, til að gera þér grein fyrir öllu sem hefur gerst á þessum tíma. Heimsfaraldurinn var líka frábær áminning þar sem við neyddumst til að bera búnaðinn aftur sjálfir á æfingar. Við urðum að venja okkur við lúxuslaust líf aftur þar sem við höfðum áður haft fullt af fólki til að stilla upp fyrir okkur.
Er það að vera fulltrúi Íslands gagnvart heimsbyggðinni eitthvað sem hljómsveitin er meðvituð um?
Tónlistin er auðvitað í fyrsta sæti hjá okkur en við erum stoltir af því að vera frá Íslandi. Það er eitthvað sem við höldum í heiðri og erum ófeimnir við að flagga.
Margir hafa lýst sveitinni sem „blúsrokk-bandi“. Hvernig finnst þér sú lýsing stemma við þína ímynd sem sýnir Ísland fyrir heiminum?
Tónlistin mín kemur úr öllum áttum. Ég skilgreini sjálfan mig ekki sem blús- eða rokktónlistarmann eða neitt annað þar sem ég nota alls konar innblástur til að semja lög og lögin eru öll ólík. Ég veit svosem ekki hvort það passar við íslensku ímyndina en það er ekki margt sem ég get gert í því. Ég einbeiti mér bara að tónlistinni og reyni að þvinga hana ekki fram.
Þið sjáið marga staði á ferðum ykkar. Sækið þið einhvern tímann innblástur í íslenska náttúru?
Já, það gerum við alveg pottþétt þar sem við erum fæddir og aldir upp á Íslandi. Ég held að það komi bara ómeðvitað.
Er einhver sérstök flík frá 66°Norður sem er í uppáhaldi hjá þér?
Ég hef auðvitað átt 66°Norður úlpu síðan ég man eftir mér. Það er magnað hvað þær endast lengi. Það er nánast krafa að eiga eina ef þú átt heima á Íslandi. Þar fyrir utan klikkar klassíska flíspeysan aldrei og kemur alltaf í góðar notir.
Það lítur út fyrir að ég eigi eftir að lifa marga jökla á minni ævi sem er staðreynd sem kemur manni niður á jörðina
Koma einhverjar sögur upp í hugann sem tengjast 66°Norður?
Ég man hvað ég hef alltaf verið hrifinn af Kríu-lógóinu, alveg frá því ég var lítill. Reyndar hef ég stöðugt verið að stinga upp á því að 66°Norður taki það aftur í notkun. Það gerðist svo loksins þannig að það er frábært að sjá það aftur í umferð.
Á hvaða hátt hefur líf þitt breyst síðan Kaleo sló í gegn á heimsvísu?
Á allan hátt, ef ég á að segja eins og er. Maður fórnar öllu og er til í að gera hvað sem er þegar kemur að því að semja og taka upp tónlist, ferðast um heiminn og reka fyrirtæki sem snýst um tónlist.
Núna þegar þið búið í útlöndum, hvað er það við Ísland sem þið saknið mest?
Auðvitað söknum við fjölskyldu og vina en það er eitthvað alveg einstakt við landið og náttúruna sjálfa sem kallar meira og meira á mig eftir því sem ég er lengur í burtu. Ég verð líka að minnast sérstaklega á matinn og vatnið!
Áttu einhverjar minningar um veður á Íslandi, hvort sem það er brjálað stormviðri eða björt sumarnótt?
Ég hef upplifað alls konar veðuraðstæður á Íslandi. Eitt minnisstætt atvik er þegar við fórum með umboðsmanninn okkar í Bláa lónið í fyrstu heimsókninni hans til landsins. Við upplifðum allar fjórar árstíðirnar þennan klukkutíma sem við vorum þar.
Að lokum – nafnið þitt: Jökull. Það er sagt að mikið felist í nafni. Finnst þér að nafnið hafi haft áhrif á þig á einhvern hátt?
Það er góð áminning um að hugsa um umhverfið og þörfina á að vernda það. Það lítur út fyrir að ég eigi eftir að lifa marga jökla á minni ævi sem er staðreynd sem kemur manni niður á jörðina.