Björn Steinbekk

Sjómannskonan

Ljósmyndir og myndband Björn Steinbekk
Texti Björn Steinbekk
Staðsetning 65°08'56.0"N 13°41'12.2"W

Stundum er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp eitt barn og fyrr á öldum og árum má það til sanns vegar færa. Sérstaklega í þorpum og bæjum hringinn í kringum landið þar sem sjávarútvegur var aðal atvinnugreinin og hafið kallaði menn til sín, ótt og títt í hvaða veðrum sem var. Stundum dögum, stundum vikum og stundum, eftir komu vinnsluskipanna, mánuð eða meira hverju sinni.

Sjómennska var lengi framan af ekki fjölskylduvænt starf og eflaust einhver sem vill meina að slíkt sé starfið enn.  Það eru ótal sögur af mönnum sem hafa misst af viðburðum í lífi barna sinna sökum þess að hafið hélt þeim í burtu, eða dyntóttur skipstjóri vildi ekki fara í land á þriðjudegi því hjátrúin var slík þó lestar væru fullar og kostur orðinn lélegur.

Við þekkjum öll, sem höfum haft vit og rænu frá miðja síðustu öld, þessa ímynd af sjómanninum íslenska með blekklessu á framhandleggnum sem einu sinni var góð hugmynd að tattúi í einhverjum kjallara í Bremerhaven eða Grimsby og kom ágætlega út...þar til allt rann saman, er saltað norður Atlantshafið barði á því í 18 vindstigum undan Glettingi.

Þetta er sami sjómaðurinn sem kom heim snemma um morgun eftir langan túr, henti kossi á börnin, þegar hann mætti þeim í hurðinni,  á leið í skólann og átti kannski smá stund með eiginkonunni, áður en haldið var aftur á miðin um kvöldið, eftir að hafa borðið lambahrygg með brúnuðum kartöflum, grænum baunum, rauðkáli og brúnni sósu.

Tímarnir hafa sem betur fer breyst. Tribal tattú og síðan half sleves eru komnar á handleggi og aðra framandi staði á líkama sjómanna og það er litið hornaugum ef menn húka út á dekki til að reykja.

Í dag fá sjómenn við Íslandsstrendur snöpp og Facebook skilaboð meðan þeir standa út á dekki meðan kallinn í brúnni gælir við loðnutorfu með nútíma tækni og tíðnum eða eftir aðgerð niðri á millidekki, meðan beðið er eftir að skipstjórinn fái þriðja nemann inn á trollinnu og hífi trollið, vonandi fullt af þorski, ýsu eða karfa. Í það minnsta það sem forstjórinn vill að veitt sé, miðað við kvótastöðu og markaðsverð.

Á sama tíma halda eiginkonurnar í landi  heimilinu gangandi, í vinnu og með eigin frama, eins og t.d. hún Agnes, starfsmaður í Lyfju á Neskaupstað með plön um frekara námþegar Júlía, Elísa og Móa verða aðeins eldri. Já, Agnes Björk Sæberg er eiginkona sjómanns en ekki endilega sjómannskona. Hún er límið á heimilinu við Marbakka á Neskaupstað meðan Jóhann Óli Ólafsson eltist við loðnu, kolmuna eða síld um borð í Beiti NK 123.

 Það er samt áþreifanlegt þetta samviskubit sem sjómenn hafa er kemur að fjölskyldum sínum. Þessi undirliggjandi söknuður sem skýtur upp kollinum þegar Jóhann hefur minna en ekkert fyrir stafni og hugurinn leitar heim.

Að sama skapi, hundruðum sjómílna í burtu, undir Nípunni sem mótar Norðfjörðinn að norðan er það æðruleysið og ástinsem á hug Agnesar því þegar maður kynnist henni þá veit maður að í hjónabandi hennar og Jóhanns er glasið alltaf hálf fullt og gott betur.