Halla Mía og Haukur Sigurðsson.

Sólarkaffi

Myndband Haukur Sigurðsson og Halla Mía
LjósmyndirHaukur Sigurðsson
TextiHalla Mía

„Sólardagur er þegar sólin skín í Sólgötuna og þá er ég vön að baka pönnukökur,“ segir Lilja Sigurgeirsdóttir. Hún býr í litlu 120 ára gömlu húsi sem stendur við Sólgötu 2 á Ísafirði.

Ísafjörður kúrir undir bröttum fjöllum Skutulsfjarðar sem virðast rísa nær þverhnípt upp úr sjónum. Á veturna þegar sólin er lágt á lofti ná geislar hennar ekki niður í fjörðinn. Ísfirðingar þurfa þá að sætta sig við daga í skugga fjallanna, án þess að sjá sólina, frá lokum nóvember til loka janúar. Á stysta degi ársins er sólin innan við þrjár klukkustundir á lofti, sólarupprás er rétt eftir klukkan tólf á hádegi og sólin er sest fyrir klukkan þrjú. En þótt sólin sé á lofti þennan styðsta dag ársins sjá Ísfirðingar hana ekki aftur fyrr en um mánuði síðar.

Lilja er 75 ára og hefur alla tíð búið á Ísafirði, hún hefur því samtals búið í tólf og hálft ár í skugga fjallanna á Ísafirði. „Ég hef alla tíð verið hér og það er kannski þess vegna sem mér finnst þetta ekkert skrítið,“ segir Lilja.

Þegar líður á janúar teygja sólargeislarnir sig neðar og neðar eftir hlíðum Skutulsfjarðar um leið og dagarnir lengjast. „Þá er hún oft í fjallatoppunum, og það er mjög fallegt, en hún kemur ekki niður í bæinn,“ segir Lilja.

Það er spenna og tilhlökkun í loftinu þegar líður að sólardegi – hvort sem það er sólarinnar eða pönnukakanna vegna. Landfræðilega ætti sólin að geta skinið í Sólgötu á Ísafirði þann 25. janúar, sem er formlegur sólardagur, en það er allur gangur á því hvenær veðrið er sólinni hliðhollt. Í ár lét sólin bíða eftir sér, og er fyrst núna að láta sjá sig.

Lilja ólst upp við að mamma hennar bakaði sólarpönnukökur og hún viðheldur hefðinni. Lilja starfaði lengi sem matráður á leikskólanum Sólborg áður en hæglætislíf eftirlaunaáranna tók við. Ár hvert gátu fögnuðu krakkarnir á Sólborg sólinni samtímis sólarpönnukökum Lilju.

„Sólarpönnukökur eru ekkert öðruvísi en aðrar pönnukökur nema af því leyti að það er kannski smávegis af sól, eins og smávegis af ýmsu öðru,“ segir Lilja.

Í sólarpönnukökum Lilju eru: hveiti, sykur, lyftiduft, vanilludropar, egg, salt, smjörlíki, mjólk og sól

Lilja skvettir vanilludropum í skálina. „Þetta eru mælingarnar hjá mér – þetta gerði mamma, hún vigtaði aldrei neitt í svona. Það var eiginlega alveg sama hvað hún bakaði.“ Lilja segist þó jafnan nota uppskriftir - en ekki fyrir pönnukökur. „Ég held að það sé bara tilfinningin,“ segir hún.

„Er ég nokkuð að kveikja í pönnunni?,“ spyr Lilja. Smjörlíkið bráðnar á pönnunni og hún blandar því svo saman við deigið. „Það er voðalega vont að baka á nýjum pönnum og þú mátt alls ekki þvo þær,“ segir hún.

Lilja gægist út um gluggann og skimar eftir sólinni, kannar hvort hún sé líkleg til að láta sjá sig í kaffiboðum henni til heiðurs.– Stundum lætur hún bíða eftir sér. „Ég baka yfirleitt ekki, og hef aldrei gert, sólarpönnukökur fyrr en sólin sést hérna í Sólgötunni. Ef það er skýjað og leiðindaveður þá sjáum við ekkert sólina. Við bíðum eftir henni alveg eina, tvær vikur, því það hefur oft verið rosalegt veður hérna á þessum árstíma. - Þetta eru ekkert sólarpönnukökur nema að maður sjái sólina.“

Lilja býr ein í litla rauða húsinu við Sólgötu 2. „Þetta er ósköp notalegt, vinalegt hús og mér líður óskaplega vel - þótt ég geti sagt að ég sé aldrei ein hérna,“ segir hún og hlær. Hún á sjö börn, 24 barnabörn og sjö barnabarnabörn. Fæst þeirra búa enn á Ísafirði en þeim sem eru enn, og systrum sínum, býður Lilja í sólarkaffi.  

„Þegar sólin skín þá birtir alveg yfir manni. Það er mjög notalegt og hlýlegt að fá hana aftur. Þá bakar maður pönnukökur og býður svo sínum nánustu að koma í kaffi. - Þá fer nú að lifna yfir öllu svona,“ segir Lilja.

„Það er langbest að borða sólapönnukökur bara með sultu og rjóma eða sykri. Þetta er það besta sem þú færð,“ segir Lilja.