Donal Boyd
Dalurinn. Smáhýsin. Refirnir.
Árið 2015 ferðaðist ljósmyndarinn og náttúruverndarsinninn Donal Boyd til Íslands.
Ég heimsótti Ísland fyrst sumarið 2015. Nokkrum mánuðum síðar flutti ég hingað frá Bandaríkjunum til að búa í skottinu á Land Rover Defender. Það voru alls engin flottheit. Aðeins brýnustu nauðsynjar. Undirlagið undir þunnu notuðu dýnuna mína var viðarplata sem lá ofan á nokkrum IKEA-ílátum. Á þessum tímapunkti var mér sama við hvaða aðstæður ég bjó. Það eina sem skipti máli var hvar ég bjó. Ég þurfti að vera í nálægð við náttúruna sem varð til þess að ég gerði róttækar breytingar á lífi mínu. Heimili á hjólum, sem ég gat ekið hvert á land sem var, gerði það mögulegt.
Það leið ekki á löngu þar til ég var kominn aftur í hjarta dalsins sem kveikti fyrst áhuga minn á að ferðast til Íslands. Þórsmörk. Stórbrotið fjalllendi í suðurhluta Íslands sem er sorfið af vatnsmiklum jökulám sem móta og endurmóta landslagið í sífellu. Fjöldinn allur af ám aðskildu umheiminn frá þessum afskekkta stað á hálendinu. Hér fann ég hugarró í því að tengjast náttúrunni á þann hátt sem ég hafði aldrei upplifað áður.
Það leið ekki á löngu þar til ég var kominn aftur í hjarta dalsins sem kveikti fyrst áhuga minn á að ferðast til Íslands
Fljótlega kom ég mér upp bækistöð hjá Volcano Huts – fjallahóteli sem staðsett er á miðju svæðinu. Hér eignaðist ég mína bestu vini og fannst ég einnig tilheyra einhverju. Smáhýsin urðu miðpunktur tilverunnar og dalurinn heimili mitt. Á þessu nýja heimili þroskaðist ég og varð að þeim ljósmyndara sem ég er í dag. Nærður af umlykjandi innblæstri gríðarstórra eldfjallahnjúka og mótaður af náttúruöflunum, litadýrðinni og áhrifum frá nánum vinum, fór ég að líta heiminn öðrum augum.
Veðrið í Þórsmörk var síbreytilegt í skugga tveggja jökla sem eru meðal þeirra stærstu á Íslandi, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls, vegna nærloftslags þeirra. Oft varð það ofsafengið. Eina stundina var heiðskírt og þá næstu rigndi. Svo dögum skipti. Árnar bólgnuðu og þegar þær voru orðnar mjög djúpar voguðu stærstu jeppar Íslands sér ekki einu sinni yfir þær.
Dag einn síðdegis, haustið 2016, hófst einmitt þessi atburðarás. Ég man að ég var að koma til baka úr langri göngu á sólríkum degi og dökka skýið sem hafði verið við dalbotninn fyrr um daginn var nú við rætur fjallsins. Klukkustund síðar fór að rigna. Það hellirigndi í sólarhring. Líkt og hellt væri úr fötu. Árnar flutu yfir bakka sína. Næsta dag tvöfaldaðist úrkoman og dalurinn var á kafi í vatni. Aftan við smáhýsin myndaðist ný á því regnvatnið hafði enga aðra undankomuleið. Við sátum föst.
Á nokkrum klukkustundum hafði dalurinn umbreyst í stöðuvatn en smáhýsasvæðið var eitt af fáum svæðum á sléttlendinu sem ekki var hulið vatni. Þar var því öruggt athvarf frá beljandi ánum sem nú umluktu okkur. Við vorum þó ekki þau einu sem höfðu leitað skjóls á þessari nýju eyju. Fjallarefir svæðisins höfðu einnig fundið afdrep á meðal okkar.
Stóran hluta sumarsins hafði ég hægt og rólega byggt upp samband við refina á staðnum. Eftir því sem mánuðirnir liðu og ég fór að kynnast þeim betur urðu þeir einnig vanari því að láta fylgjast með sér. Með tímanum breyttist því varkárni þeirra í forvitni.
Hver er eiginlega þessi forugi maður sem býr í málmhylki með fyrirbæri sem gefur frá sér smell þegar hann ber það upp að auganu? Þetta ímynda ég mér að þeir hafi hugsað í hvert sinn sem þeir sáu mig stökkva út úr jeppanum og skríða í öskunni til að mynda þá í fjallshlíðinni.
Það var hálfpartinn eins og klippt út úr kvikmynd þegar rigningunni loks linnti. Það stytti upp jafnskjótt og það hafði byrjað að rigna og sterkir geislar sólarinnar lýstu skyndilega upp allt svæðið. Búmm! Gullin slæða sveipaði dalinn. Þegar við komum úr felum og fórum út í fyrsta sinn í marga daga, hitti ég refina á túninu við hliðina á smáhýsunum.
Óraunveruleg þögn
Ég hef eytt mörgum árum í að rannsaka refina í Þórsmörk. Á ólíkum árstíðum. Ég hef séð þá fara í vetrarfeldinn og aftur í sumarfeldinn. Ég hef orðið vitni að því þegar yrðlingar stinga kollinum í fyrsta sinn út úr greninu. Ég hef setið með þeim í slagviðri, snjóbyl og öllu mögulegu veðri. Ég hef komist að því hversu ótrúlega seigur fjallarefurinn er. Hvernig landslagið hefur mótað tilveru þeirra. Eftir að hafa eytt miklum tíma með þeim hef ég líka komist að því hvað ég á margt sameiginlegt með þessum refum.
Ég breyttist sem manneskja í dalnum. Líkt og refirnir, mótaðist ég af umhverfinu. Ég hef lært að fagna veðrinu fremur en að hlaupa í skjól. Horfast í augu við það og gera það að hluta af sögu minni í stað þess að láta það ráða henni. Þetta á sérstaklega við hér á Íslandi, þótt ég hafi líka lært að nýta mér þetta á öðrum ferðalögum. Ef það hefði ekki verið fyrir þennan lærdóm snemma á lífsleiðinni, hefði ég aldrei orðið sá ljósmyndari sem ég er í dag.