Fjallaskíði á Vestfjörðum
Ása Steinarsdóttir
Ása Steinarsdóttir sagði skilið við skrifstofuna og elti drauminn sinn um að gera ljósmyndun, sitt helsta áhugamál, að atvinnu.
Þegar Ása Steinarsdóttir áttaði sig á því að hún byggi í návígi við eina mögnuðustu náttúru heims, sagði hún skilið við skrifstofuna og elti drauminn sinn um að gera ljósmyndun, sitt helsta áhugamál, að atvinnu.
,,Ljósmyndun var alltaf bara áhugamál fyrir mér og mér datt í raun aldrei í hug að ég gæti gert eitthvað meira úr því. Þess vegna viðraði ég ekkert hugmyndina þegar ég var yngri og gekk í háskóla, þar sem mér fannst það vera 'skynsamlegasta ákvörðunin'. Það var ekki fyrr en ég fór að ferðast sem áhugi minn á ljósmyndun byrjaði að aukast. Í kjölfarið var mér síðan boðið starf hjá auglýsingastofu þar sem ég safnaði að mér mikilli þekkingu, sem nýttist mér síðan mikið þegar ég tók skrefið yfir í að gera ljósmyndun að minni aðal atvinnu.”
Ásu finnst best að njóta íslenska vetursins með því að fara á fjallaskíði, en brennandi áhugi hennar fyrir íþróttinni kviknaði fyrir einungis um ári síðan. Að hennar mati eru Vestfirðirnir einna bestir til iðkunnar íþróttarinnar, en einstök náttúrufegurð og skemmtilegar brekkur bjóða upp á kjöraðstæður.
Fyrr í vetur ferðaðist Ása til Vestfjarða til að reyna í sitt fyrsta sinn, að skíða frá fjallstindi og alveg niður að sjó, en Vestfirðirnir eru á meðal fárra staða í heiminum sem bjóða upp á slíka upplifun.
,,Við ferðuðumst vestur í lok febrúar með því markmiði að ná að skíða í einum legg frá fjallstindi og alveg niður að sjó. Við keyrðum til Flateyrar þar sem við vissum að við gætum gengið að mikilli náttúrufegurð og vinalegu viðmóti heimamanna.
Ísland er algjör paradís fyrir fjallaskíðamenn þar sem útsýnið yfir firðina og sjóinn er alveg einstakt - aðeins nokkrir aðrir staðir í heiminum bjóða upp á þessa tegund náttúrufegurðar. Til viðbótar, þá hefur Ísland þá sérstöðu að fjöllin hafa nánast alveg flatan topp og eru því tilvalin fyrir fjallaskíðunariðkun. Þegar komið er upp á slík fjöll þá bíður það upp á ótal tækifæri og mismunandi leiðir til að skíða niður.
Það sem ég dýrka síðan einna mest við að skíða á Íslandi er að enda daginn í heitri náttúrulaug nálægt fjallinu. Það er held ég eitthvað sem þú finnur hvergi annarsstaðar!"
,,Það erfiðasta við að stunda fjallaskíði á Íslandi er án efa veðrið. Einn daginn þegar við vorum á Vestfjörðum þá var það hvasst að við þurftum að snúa við eftir að hafa lagt af stað upp fjallið. Til viðbótar voru nokkrir dagar þar sem það var nánast ekkert skyggni og suma daga var úrhelli. Að ná að hitta á réttan 'veðurglugga' getur reynt mikið á þolinmæðina.”
Þrátt fyrir að erfiðar veðuraðstæður settu sitt mark á ferðina þá segir Ása að jákvætt hugarfar skipti alltaf máli í svona ferðum og því þurfi ávallt að taka ,,Þetta reddast” hugarfarið með sér.