Sölvhóll
Sölvhóll vörulínan er handgerð á Íslandi með sjálfbærni að leiðarljósi.
Sölvhóll verndar þig gegn íslenskri veðráttu
Sölvhóll vörulínan samanstendur af hágæðavörum, sem allar eru handgerðar á Íslandi og fást í takmörkuðu upplagi. Náttúrulegir eiginleikar íslensku ullarinnar er útgangspunkturinn í hönnun Sölvhóls en tæknilegri efni eru notuð til að auka vatns- og vindheldni flíkanna.
Vörurnar voru hannaðar með sjálfbærni og endurnýtingu í forgrunni þar sem mikil áhersla var lögð á að fullnýta allt hráefni. Sölvhóll vörulínan samanstendur af kápu, dömukápu, mittistösku og kerrupoka.
Sölvhóll vörulínan er eingögnu fáanleg í verslunum okkar á Hafnartorgi og á Regent Street í London.
Sölvhóll kápa
Innra byrði kápunnar er úr mjúkri íslenskri gæru, sem einangrar vel og heldur hita. Ytra byrðið er gert úr þriggja laga vatnsheldu efni með límdum saumum. Hægt er að klæðast innri jakkanum og ytra laginu hvoru fyrir sig og er því flíkin þrjár yfirhafnir í einni. Vatnsheldni kápunnar er að lágmarki 20.000 mm og öndunareiginleikar eru 8.000 MVP.
Sölvhóll dömukápa
Kápan er úr þriggja laga skel með kraga úr gæru (sem taka má af) sem hægt er að hafa upp í háls eða leggja niður. Á kápunni eru tvær gerðir af mittisbeltum, annað þeirra í gömlum stíl og hitt til þess að brjóta upp yfirbragð flíkurinnar.
Endist alla ævi
Í Sölvhóls línunni er búið að sameina gæði íslensku ullarinnar og tæknilegra efna sem gerir flíkurnar fábærar fyrir íslenskar aðstæður. Hönnunin byggist að hluta til á sígildum gæruúlpum fimmta áratugs síðustu aldar sem voru lengi vel eins konar óformlegur einkennisbúningur verkamanna. Það er ekki óalgengt að sjá ungt fólk klæðast slíkum úlpum sem það erfði frá foreldrum sínum eða jafnvel frá ömmu eða afa.
Í dag standa öll heimsins efni okkur til boða og Íslendingar eru ekki upp á ullina komnir eins og þeir voru. En hún hefur ekki glatað vinsældum sínum enda þróaðist hún sérstaklega fyrir okkar veðurfar. Ef það er hugsað vel um Sölvhól þá gæti flíkin hæglega enst alla ævi og jafnvel lengur en það.
Það skiptir 66°Norður miklu máli að fatnaðurinn okkar nýtist vel. Þess vegna lofum við því að gera við hvaða flík sem er, hvort sem hún er nokkurra ára eða nokkurra áratuga gömul. Til þess að geta efnt þetta loforð höldum við lager af rennilásum, smellum og öðrum álíka aukahlutum.
Búið til í höndunum
Sölvhóll er tímalaus og sígild lúxusvara með eiginleika sem jafnast á við háþróaðan og tæknilegan útivistarfatnað. Á sama tíma hefur flíkin sterka skírskotun til menningar og sögu þjóðarinnar.
Sölvhólsflíkurnar eru allar handgerðar á saumastofu 66°Norður í Miðhrauni í afar takmörkuðu upplagi. Þannig eru tryggð mestu mögulegu gæði. Allar gærurnar eru aukaafurð úr mannúðlegri rækt lausagöngufjár á fjölskyldubýlum.
„Það má segja að með útspili Sölvhólslínunnar séum við að heiðra minningu fyrstu gæruúlpunnar sem var framleidd á Íslandi um miðja síðustu öld. Þessi magnaða úlpa var mjög lengi eins konar einkennisbúningur íslensku þjóðarinnar, þar sem háir og lágir skörtuðu henni til að skýla sér gegn íslenska veðrinu.“
Sunneva Vigfúsdóttir, sérfræðingur í vinnslu á gærum.
Sölvhóll mittistaska
Sölvhóll mittistaskan var hönnuð til þess að nýta afganginn af lambagærunni úr framleiðslu á Sölvhóls úlpunni. Að breyta þessum afgöngum í aðra endingargóða gæðavöru er einn liður í því að auka sjálfbærni í framleiðslunni.
Sölvhóll kerrupoki
Ein af óvenjulegri hefðum Íslendinga er að láta ungbörn sofa úti í frísku lofti í barnavagni. Þau sofa vært í hlýjum loðfóðruðum kerrupokum. Kerrupokinn Sölvhóll er mjög nútímaleg útfærsla fyrir þessa aldagömlu hefð. Innra byrðið er gert úr mjúkri íslenskri gæru sem heldur á barninu hita. Ytra byrðið er gert úr þriggja laga vatnsheldu efni með límdum saumum og veitir þannig mikla einangrun fyrir köldu lofti umhverfis kerruna. Mikilvægt er að barnið sé í fatnaði sem andar, eins og til dæmis flís eða ull, til að halda hlýju í pokanum.
Þvottaleiðbeiningar
Handgert á Íslandi úr íslenskri gæru.
Sölvhólsvörulínan er framleidd á saumastofu 66°Norður í Miðhrauni í Garðabæ í mjög takmörkuðu upplagi. Íslenska sauðkindin er einstök og hefur í gegnum aldirnar aðlagast íslensku veðurfari, kulda og úrkomu. Allar gærur sem 66°Norður notar til framleiðslu á Sölvhólsvörunum eru hliðarafurðir sem falla til hjá íslenskum sauðfjárbændum. Áður en nútímahlífðarefni komu til sögunnar á 21. öldinni, var sauðfjárgæran eini hlífðarfatnaðurinn sem notaður var til að verjast íslenskri veðráttu.
Litbrigði gærunnar geta verið mismunandi af náttúrulegum ástæðum.
Umhirða á skel: Við mælum með því að láta fagfólk sjá um þvott á flíkinni. Má ekki þurrhreinsa. Má ekki bleikja. Þvoið á mildri stillingu við 30°C. Má ekki þurrka í þurrkara. Má strauja á lágu hitastigi.
Umhirða á gæru: Við mælum með því að láta fagfólk sjá um bæði þvott og meðhöndlun á leðrinu. Eftir 2-5 þvotta getur vatnshelt lag leðursins minnkað. Við mælum með því að nota sílíkonsprey á leðrið.
Með góðri umhirðu getum flíkin enst ævilangt.
Ljósmyndir eftir RAX - Ragnar Axelsson
Kindur og menn
Þeir sem þekkja vel til íslensku sauðkindarinnar segja að hún sé hörð af sér, úrræðagóð og sjálfstæð - stundum fram úr hófi. Margir myndu sennilega lýsa íslensku þjóðinni með sama hætti. Enda er saga sauðkindarinnar hér á landi samofin sögu okkar mannfólksins. Þegar menn námu land á Íslandi um 874 fylgdi þeim fé, sennilega ekki margar skepnur, en þær fjölguðu sér hratt fyrstu áratugina og skipuðu fljótt mikilvægan sess í lífsbaráttunni hér á landi.
Íslenska sauðfjárkynið í dag er beinn afkomandi þessara fyrstu kinda og það varðveitir ýmsa forna eiginleika sem sauðkindur annars staðar í veröldinni hafa glatað. Til dæmis finnast forystusauðir hvergi annars staðar, en það eru sérlega greindar kindur - ratvísar og veðurglöggar - sem vísa hjörð sinni veginn.
Ljósmyndir eftir RAX - Ragnar Axelsson
Þúsund ára saga
Með tímanum aðlagaðist sauðkindin að köldum og blautum veðurskilyrðunum hérlendis og þróaði með sér einstaka lagskipta ull sem aðeins örfá sauðfjárkyn á heimsvísu hafa yfir að búa. Ytra lagið, tog, samanstendur af löngum, sléttum og grófum hárum sem hrinda burtu vatni og verja féð fyrir vindi. Innra lagið, þel, er miklu fínna og mýkra. Það heldur í sér miklu lofti og er því létt í sér. Þelið andar vel og er mjög einangrandi. Þannig hefur það haldið hita á Íslendingum - jafnt mönnum sem sauðum - um aldabil.
Ullin var eini hlífðarfatnaðurinn sem Íslendingar þekktu í yfir þúsund ár og því má segja að búseta hefði kannski aldrei náð fótfestu á Íslandi ef ekki hefði verið fyrir sauðkindina. Enn þann dag í dag erum við bundin sauðkindinni órofa böndum eins og sjá má glöggt á fötunum sem Íslendingar gjarnan klæðast en einnig í fjölda hefða sem tengjast fé með einum eða öðrum hætti. Nægir þar að nefna réttir og réttarböll að hausti.
Á sumrin sleppa bændurnir í Öræfum fénu hátt í fjöll þar sem það leikur lausum hala þar til fer að hausta, þá bíður þeim vandasamt og erfitt verk: að smala fénu aftur niður af fjallinu.
Það er góður og gegn íslenskur siður að henda ekki neinu sem kemur enn að notum. Gæði, ending og fjölbreytt notagildi eru því gamalgróin gildi hjá 66°Norður. Þess vegna hefur hringrásarhugsunin alltaf verið í fyrirrúmi hjá okkur. Við höfum verið kolefnishlutlaus frá 2019, árið 2020 hófum við að rækta okkar eigin skóg og árið 2021 fengum við aðild að bluesign® SYSTEM PARTNER.