Þú verður að taka áhættur

Baltasar Kormákur, leikstjóri Kötlu, um veðrið, framtíðina og náttúruöflin

LjósmyndariLilja Jónsdóttir
TextiAtli Bollason

Þann 17. júní, þjóðhátíðardegi Íslands, frumsýndi Netflix nýja þáttaröð sem heitir Katla. Þetta er fyrsta framleiðsla Netflix á íslenskri tungu, sviðsett á meðan á hörmulegu og mjög raunverulegu Kötlugosi stendur. Í þættinum hefur eldgosið kaffært Vík í ösku og fælt í burtu flesta íbúa svæðisins. Þau sem eftir urðu byrja að taka eftir undarlegum fyrirbærum, sem eru ekki alveg af þessum heimi. 

Við náðum í Baltasar Kormák, höfund þáttarins, sem eftir farsælan feril sem leikari á tíunda áratugnum kom fram á þessari öld sem einn helsti kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi Íslands með verk eins og 101 Reykjavík, Mýrin, Everest og þáttaröðina Ófærð sem er enn í gangi. 

Þú ert í Suður-Afríku núna við tökur á þinni næstu kvikmynd, Beast. Hvernig er fyrirsjáanlega veðrið þar í samanburði við tökur á Íslandi? 
Nú, fyrir það fyrsta getur maður gert alvöruplön hérna! Veðrið er fyrirsjáanlegt og stöðugt; það er fallegt og mjög hlýtt. Það þarf nánast aldrei að fresta neinu vegna veðurs, en á Íslandi er verið að vinna með allar gerðir af veðri: rigningu, snjó, sól, vind ... oft allt á sama degi. Þú getur lent í snjó á sumrin og sól á veturna. Svo það eru vandamál og það þarf stöðugt að endurskipuleggja eða gera breytingar á síðustu stundu. En það gerir mann að mjög sveigjanlegum kvikmyndagerðarmanni. Ég held að það sé gott að hafa þá reynslu. 

Þú virðist vera ansi harður á því að búa á Íslandi og flytja ekki til Los Angeles eða á annan stað þar sem þú værir nær bransanum. Hvers vegna? 
Ég er jafn íslenskur og lopapeysa. Þó að ég líti kannski öðruvísi út en flestir þar, þá er hjarta mitt íslenskt og ég gæti ekki hugsað mér að vera annars staðar. Ég mun eyða næstum því einu ári í Suður-Afríku og ég nýt þess en ég get ekki yfirgefið Ísland. Ég á börn þar og dýr sem mér er mjög annt um. Ég get ekki rifið mig upp með rótum. 
Ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri til að vinna í Nepal, Fídjieyjum, Suður-Afríku, Panama, Ameríku … öllum þessum stöðum sem ég hef kvikmyndað á um allan heim. En þegar kemur að vinnu nýt ég mín samt sem áður best á Íslandi. Mér líður eins og ég geti verið sannasta útgáfan af sjálfum mér þegar ég er við tökur þar. 

 

Markmið mitt hefur verið að opna alþjóðlega kvikmyndamiðstöð á Íslandi

Síðasta áratug hafa íslenskar kvikmyndir hlotið mikið lof gagnrýnenda og unnið til verðlauna og svo höfum við framleitt mjög vinsælar sjónvarpsþáttaseríur eins og Ófærð. Svo virðist sem Katla muni halda áfram þessari hefð. Hvernig sérðu fyrir þér framtíð íslensks kvikmyndaiðnaðar? 
Markmið mitt hefur verið að opna alþjóðlega kvikmyndamiðstöð á Íslandi. Ekki þjónustufyrirtæki fyrir stóru Hollywood-kvikmyndaverin heldur til að geta framleitt kvikmyndir í stærri stíl. Katla er til dæmis eins íslensk og hægt er að vera. Hún fjallar um íslenskar þjóðsögur og íslensk eldfjöll og er núna númer fimm á Netflix um allan heim. Öll sem vinna að Kötlu eru íslensk fyrir utan tvo leikara sem eru sænskir. Það opnar endalausar dyr og möguleika fyrir íslenska hæfileika. Fyrir nokkrum árum datt mér ekki einu sinni í hug að þetta væri möguleiki, að stórt kvikmyndaver myndi koma inn og fjármagna að fullu íslenska framleiðslu. 

Vonandi mun fjölbreytnin einnig aukast. Við munum hafa alls konar kvikmyndagreinar. Að mínu mati stendur það íslenskri kvikmyndagerð svolítið fyrir þrifum að hún er frekar einsleit. Það er mikið af sama efninu. Við verðum að gera marga mismunandi hluti ef við ætlum að starfa áfram. Við verðum að gera listrænar kvikmyndir og kvikmyndir sem almenningur vill sjá: barnamyndir og ævintýra- og hryllingsmyndir og vísindaskáldskap ... hvað sem er undir sólinni í raun og veru. Líka bara til þess að halda íslenskum áhorfendum áhugasömum. 
Það er frábært með þátt eins og Kötlu, sem er ansi óhefðbundin hugmynd, að alls konar fólk á Íslandi virðist vera að horfa á hann. Ég fékk meira að segja tölvupóst frá einhverjum sem vinnur á hjúkrunarheimili sem sagði að gamla fólkið væri svo spennt að það mætti ekki í síðdegiskaffið vegna þess að það vildi ekki hætta að horfa.  

Af hverju heldurðu að Netflix hafi verið tilbúið að taka þessa áhættu? 
Ég held að þeim hafi litist vel á hugmyndina. Og þau vildu gera eitthvað með mér og mínu fyrirtæki. Ég hef verið að varpa fram hugmyndinni síðan 2010 eða 2011 og áhuginn var mikill. Fyrirtæki J.J. Abrams hafði áhuga en að lokum vildi það framleiða þættina á ensku en ég vildi gera þá á íslensku. Og svo kom Netflix.  Þetta er ekki kjörtímasjónvarpsþáttur sem þú setur á dagskrá á venjulegri sjónvarpsstöð. Þetta er mun meira á jaðrinum. Þetta er tvímælalaust frumlegasta hugmyndin sem ég hef unnið að. Viðtökurnar hafa semsagt verið frábærar og einfaldlega sú staðreynd að við fengum að framleiða þá.  

Þegar þú varst að leggja lokahönd á Kötlu hófst eldgosið í Fagradalsfjalli. Hvernig tilfinning var það? Heldurðu að listin geti kennt okkur að takast á við hörmungar? 
Ég var að vona að það yrði Katla! Nei, í alvöru talað lít ég ekki þannig á það. Ég hef áhuga á að fylgjast með fólki og viðbrögðum þess við mismunandi aðstæðum. Kannski er hægt að læra eitthvað af því; sumir munu bregðast svona við hættu á meðan aðrir gætu brugðist rangt við. En ég er ekki predikari á neinn hátt. Ég hef ekki áhuga á kvikmyndagerðarmönnum sem eru predikarar. Listin ætti að vera listarinnar vegna, ekki fyrir pólitískan tilgang eða áróður. 

Þegar maður býr í landi eins og Íslandi, umkringdur eldfjöllum og slæmu veðri, minnir það mann daglega á að maður er þar á forsendum náttúrunnar

GDRN in 66°North SS21 campaign

Katla kemur inn á þemu eins og smæð mannsins gagnvart náttúrunni. Telur þú að það sé sannara á Íslandi en annars staðar? 
Algjörlega. Þegar ég var að gera Everest spurði fólk mig hvernig ég hefði undirbúið mig og ég sagði: „Með því að labba í skólann á hverjum degi.“ Fyrir krakka í hríðarbyl var það eins og að klífa Everest-fjall. Þegar maður býr í landi eins og Íslandi, umkringdur eldfjöllum og slæmu veðri, minnir það mann daglega á að maður er þar á forsendum náttúrunnar. Ég man þegar Eyjafjallajökull gaus [árið 2010] og fólk var pirrað yfir því að geta ekki ferðast ... það minnti mig á að fjöldi fólks er ekki í sambandi við náttúruna. Við erum ekki við stjórnvölinn og já, kannski gætum við þurft að endurskipuleggja flugið okkar. Það er fyndið þegar fólk missir sjónar á því. 

 

Guðrún Eyfjörð, einnig þekkt sem GDRN, leikur aðalhlutverkið í Kötlu. Hún er vinsæl söngkona á Íslandi en hefur enga reynslu af leiklist. Hvernig endaðir þú á að velja hana í hlutverkið? 
Dóttir mín þekkir hana og hafði minnst á hana. Ég þekkti ekki tónlistina hennar þá en hún kom í áheyrnarprufu og heillaði mig hreinlega upp úr skónum. Mér fannst hún frábær. Auðvitað þurftum við að þjálfa hana aðeins, undirbúa hana, en að mínu mati hefðum við ekki getað valið neina betri fyrir hlutverkið.  Í þessu starfi þarftu að taka sénsa. Þú getur ekki bara alltaf gert það sama. Ég efaðist aldrei um þetta val, og núna, miðað við viðtökurnar sem hún er að fá, virðist fólk vera á sama máli. Þið munuð sjá hana gera suma hluti snilldarlega, sérstaklega í seinni þáttunum. Ég held að hún verði til staðar um allnokkurt skeið bæði sem leikkona og söngkona.  

 

Getur þú deilt góðri sögu frá tökustað þar sem 66°Norður bjargaði deginum?  
66°Norður er reyndar að bjarga deginum hér í Afríku! Næturnar eru ansi kaldar svo ég er í 66 frá toppi til táar. Ég hugsaði þegar ég var að pakka: „Mun ég virkilega þurfa á 66 að halda núna?“ Sjáðu til, ég hef verið í þessum fötum á tökustað í 15 eða 20 ár svo ég ákvað að taka þau með mér til öryggis. Og ég endaði á að vera meira í 66 heldur en nokkru öðru hérna.  

Þegar við vorum við tökur í Nepal voru þessi föt sannkallaður bjargvættur. Ég man eftir litlum dreng sem við hittum mjög hátt uppi þegar við vorum að skoða tökustaði fyrir Everest. Hann var að labba einn í brekkunum, þessi ungi strákur sem endaði reyndar á að vinna fyrir okkur. Allavega, við urðum góðir vinir og í lokin gaf ég honum 66°Norður fötin mín. Ég reiknaði með því að þetta væri besta gjöfin sem ég gæti gefið honum. Svo að hann er líklega þarna einhvers staðar í Himalajafjöllunum núna, alls ekki kalt! 

Fatnaðurinn sem Baltasar klæðist

Karlar
2 samsetningar
Karlar(1 útgáfur)
Konur(1 útgáfur)