66°Norður

Aldrei fór ég suður

Rokkhátíð alþýðunnar

Handrit og klippingHaukur Sigurðsson & Halla Mía
TextiHalla Mía
MyndatakaHaukur Sigurðsson

Hverja páska verður andrúmsloftið á Ísafirði rafmagnað, fólk skíðar á daginn og dansar á kvöldin. Skíðavikan hefur verið haldin nær hverja páska frá árinu 1935 og páskana 2004 var rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður haldin í fyrsta sinn sem þýðir að hátíðin er 20 ára í ár.

Ísafjörður

„Páskar á Ísafirði eru bara PÁSKAR með hástöfum og við erum búin að eigna okkur hugtakið, við eigum páskana,“ segir Anna Sigríður Ólafsdóttir, eða Annska eins og hún er kölluð, en hún hefur verið skíðavikustjóri á Ísafirði í gegnum tíðina. Hverja páska verður andrúmsloftið á Ísafirði rafmagnað, fólk skíðar á daginn og dansar á kvöldin. Skíðavikan hefur verið haldin nær hverja páska frá árinu 1935 og páskana 2004 var rokkhátíð alþýðunnar Aldrei fór ég suður haldin í fyrsta sinn, hátíð sem heitir eftir samnefndu lagi Bubba Morthens.

Hugmyndin að rokkhátíðinni kviknaði hjá feðgunum Guðmundi M. Kristjánssyni, Mugga eða Papamug, sem er hafnarstjóri á Ísafirði og tónlistarmanninum Erni Elíasi Guðmundssyni eða Mugison. „Fyrsta hugmyndin var sú að útfæra tónlistarhátíð á Ísafirði á þeim tíma sem fæstir kæmust þangað og ef fólk kæmist þá myndi það lokast inni,“ segir Muggi. Fólk þurfti að hafa fyrir því að komast á rokkhátíðina Aldrei fór ég suður. Þeir feðgar settust niður og skrifuðu stórskrá fyrir hina fullkomnu hátíð á servíettu: „Að það væri jafningjagrundvöllur, allir með sama sviðið, allir fengju sömu laun og óþekktari atriði fengju líka að vera á góðum tíma. Allskonar biturleiki sem okkur fannst fyndinn,“ segir Mugison, sem var þá á fyrstu árum ferils síns.

Við ákváðum að gera þetta og það tókst vel, allir með okkur í liði, og það flottasta í þessu öllu var að það eru ennþá allir með okkur í liði,“ segir Mugison, „það er ekki hægt að biðja um meira.“ Og ár hvert fær skemma í bænum hlutverk sem dynjandi tónleikahús til tveggja kvölda. Muggi og Mugison eru enn viðriðnir hátíðina. Ár eftir ár er skipulag hátíðarhaldanna í höndum hóps sjálfboðaliða. „Ég ætla að leyfa mér að vitna í Mugison og segja „Maður gerir ekki rassgat einn“ og þessi hátíð er bara vitnisburður um þetta öfluga frábæra samfélag sem er hérna fyrir vestan þar sem allir leggjast saman á eitt við að skapa eitthvað stórkostlegt,“ segir Annska, fyrrum skíðavikustjóri.

Þessi hátíð er bara vitnisburður um þetta öfluga frábæra samfélag sem er hérna fyrir vestan

Það hefur alltaf verið ókeypis á rokkhátíðina Aldrei fór ég suður og rokkhátíðin reiðir sig því á styrki og sjálfboðaliða. Ár hvert stendur til dæmis Eygló Jónsdóttir, Ísfirðingur og rokkari, vaktina og pantar og selur vörur til styrktar hátíðinni og hópur manna tryggir að skemma hátíðarinnar sé tilbúin fyrir fjölmenna tónleika tvö kvöld í röð. „Ef okkur vantar kaffivél, þá er það bara eitt símtal og það er einhver mættur með kaffivél,“ segir Birna Jónasdóttir, fyrrum rokkstýra hátíðarinnar. „Klósettpappír! Við gleymdum alltaf að kaupa klósettpappír og bankinn á tímabili hringdi alltaf í okkur áður en þeir lokuðu á miðvikudeginum fyrir páska til að minna okkur á að ná í skiptimynt.

Það hugsa bara allir ótrúlega vel um okkur og til okkar og þannig gengur þetta upp,“ segir Birna. Og það er ekki bara fólkið í bænum sem leggur hönd á plóg heldur hefur tónlistarfólki ekki þótt tiltökumál að verja páskum á Ísafirði og jafnvel lagt mikið á sig til að komast vestur þegar norðanhríð frestar flugi og lokar fjallvegum. Meðal þeirra sem hafa komið fram á hátíðinni eru Sigur Rós, Emelíana Torrini, Bubbi Morthens, Páll Óskar, FM Belfast og svo miklu miklu fleiri. „Það hefur verið eftirsótt og það hefur sennilega verið það sem hefur haldið þessu helst gangandi,“ segir Muggi.

Hið indæla vestfirska fjallaloft, komið og njótið.

Þótt páskar á Ísafirði hafi orðið PÁSKAR á Ísafirði með hástöfum með tilkomu Aldrei fór ég suður þá var engin ládeyða á páskum á Ísafirði fyrir daga rokkhátíðarinnar. Skíðavikan er elsta bæjarhátíð landsins og verið haldin frá 1935. „Hið indæla vestfirska fjallaloft, komið og njótið, var auglýst,“ rifjar Gunnlaugur, 92 ára, upp. Hann segir að í upphafi hafi verið algengt að strandferðaskipin komu til Ísafjarðar og stoppuðu yfir páskahelgina og fólkið bjó um borð.

Annska var skíðavikustjóri fyrstu páska Aldrei fór ég suður: „Það var alveg hellingur um að vera hérna á páskunum og sofið hérna í hverri kompu í bænum en það voru mest brottfluttir Ísfirðingar sem voru að koma heim, eða fólk sem var með tengsl hingað sem voru að koma á svæðið.“ Með tilkomu rokkhátíðar alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, breyttist samsetning gesta á Ísafirði um páska. „Nú kemur líka með fólkið sem hefur ekki tengsl hingað heldur vill bara koma til að hafa gaman,“ segir Annska.

Á undanförnum árum hafa Aldrei fór ég suður og Skíðavikan runnið saman í eitt. „Skíði á Íslandi voru kannski í smá dvala og svo voru allt í einu allir á skíðum, gönguskíðum, svigskíðum, fjallaskíðum. Þá lifnaði vel yfir skíðavikunni. Við sjáum tónlistarmenn á skíðum og við sjáum brottfluttu Vestfirðinga mætta fyrsta í skemmuna og þetta er orðin ein stór fjölskylda, þeir sem eru að koma á Aldrei eru að koma á skíðavikuna líka. Þú sérð þá í sundi, þú sérð þá á skíðasvæðinu og þú sérð þau í skemmunni, nú eru þetta tvö góð partý sem haldast vel í hendur og gera páska á Ísafirði,“ segir Birna. Jafnvel Mugison er kominn á skíði.

„Skíðaiðkunin er númer eitt. Það er takmarkið, þó menn breyti til og lyfti sér upp og skemmti sér líka um leið. Þar hefur náttúrlega rokkhátíðin Aldrei fengið mesta athyglina og gerir mikla lukku - þótt mér finnist of mikill hávaði í þeim,“ segir Gunnlaugur, afi Birnu, og skíðamaður til áttatíu ára. En skíðavikan hefur breyst og þróast í áranna rás og snýst nú ekki aðeins um  skíðaiðkun heldur eru einnig fjölmargir viðburðir af ýmsu tagi í þorpum norðanverðra Vestfjarða.

„Fólk getur farið út um allt og það er alls staðar eitthvað um að vera,“ segir Annska. „Svo skemmtilegt hvernig allt lifnar við núna, síðustu tíu ár. Allir að gera eitthvað og það er svo geggjað,“ segir Mugison, „nákvæmlega eins og okkur dreymdi um að þetta yrði einhvern tímann.“

Velkomin til Ísafjarðar um Páskana 2024

Skíðavikunni hefur aðeins þrisvar verið aflýst síðan 1935 og í öll skiptin vegna heimsfaraldurs. Skíðavikunni var aflýst 1949 vegna mænuveikifaraldurs og árin 2020 og 2021 vegna COVID-19. „Það sem bjargaði okkur 2021, var að það voru háhyrningar sem að fréttu af sorg okkar og mættu á Pollinn og sýndu listir sínar alla páskana, þannig að það er alltaf einhver fegurð þó að það líti út fyrir að verða drullu ömurlegt,“ segir Annska. 

Í ár er hátíðin 20 ára og Ísfirðingar og Vestfirðingar allir bjóða gesti, hvali og menn, velkomna. „Heimafólk er þakklátt fyrir alla sem koma hingað, þannig er Aldrei fór ég suður. Fólki þykir vænt um þetta og vill taka þátt og býður alla velkomna,“ segir Birna og Muggi tekur undir. „Velkomin til Ísafjarðar um Páskana 2024!“

Fatnaður fyrir páskana

Hverju skal klæðast

Konur
2 samsetningar
Konur(1 útgáfur)
Karlar(1 útgáfur)