
Jakobína Valdís og Hólmfríður Dóra
Frá Ísafirði á Ólympíuleikana árið 1956
Skíðakonurnar Jakobína Valdís og Hólmfríður Dóra spjölluðu saman yfir vöfflum í skíðaskála Ármanns upp í Bláfjöllum fyrr í janúar. Jakobína hafði tekið með sér plagg þar sem stóð á ítölsku Giochi Olimpici Invernali – Cortina 1956. Skjalið var til staðfestingar um að hún hefði tekið þátt í vetrarólympíuleikunum í Cortina árið 1956 fyrst íslenskra kvenna.
Þær skoðuðu gamlar ljósmyndir og ræddu um allt það sem hefur breyst frá því að Jakobína fór fyrst á skíði sem barn á Ísafirði. Hólmfríður er af nýju kynslóðinni og ólst upp við að renna sér í Bláfjöllum. Hún fór á sína fystu vetrarólympíuleika árið 2022 í Peking. Nú býr hún úti á Ítalíu og stefnir á að komast á vetrarólympíuleikana 2026 sem eru einmitt haldnir í Cortina þar sem Jakobína keppti árið 1956.

Úti er snjóhríð og mikið vetrarveður sem er við hæfi þar sem Jakobína segir að ein ástæða fyrir því að hún hafi byrjað á skíðum var að hún hafi ávallt elskað snjóinn.
„Mér fannst landslagið mikið fallegra á veturna en sumrin.”
Þær eru báðar sammála um að veturinn sé þeirra uppáhalds árstíð og að aðalmálið sé að kunna að skemmta sér á skíðum.
Jakobína Valdís Jakobsdóttir er 92 ára og ruddi veginn fyrir íslenskar skíðakonur. Árið 1954 var hún fyrst íslenskra kvenna til að keppa á heimsmeistaramótinu á skíðum. Tveimur árum síðar komst hún á vetrarólympíuleikana í Cortina d'Ampezzo á Ítalíu.
Þegar hún var barn þá lék hún sér alla daga á skíðum. Hún var vön að ganga á ótroðnum vegi upp í Seljalandsdal við Ísafjörð með vinum sínum. Þá voru ekki til neinar skíðalyftur og enginn troðari var fyrir hendi og því þurftu þau að troða brekkurnar sjálf með skíðunum. Ein af hennar fyrstu skíðaminningum var þegar hún fylgdist með pabba sínum renna sér á gömlu viðarskíðunum sem voru ekki með bindingar heldur einungis tá-ólar niður brekku nálægt æskuheimili hennar.
Á heimsmeistaramótinu í Åre í Svíþjóð 1954 sá hún svo skíðalyftur í fyrsta skipti. „Við vissum ekkert af lyftum í þá daga og því söknuðum við þeirra ekki neitt. Það er léttara en ekki skemmtilegra.”



Búnaðurinn sem hún notaði var barn síns tíma. Í stað bindinga voru tá-ólar, hælabindingar, gormabindingar og þannig fram eftir götunum. Svo smám saman varð þetta nýtískulegra, skíðin stækkuðu, skíðin fengu stálkanta og fólk fór að maka allskonar efnum undir þau. Áður fyrr átti snjórinn það til að festast undir skíðunum. „Eins og hælaskór,” segir hún og hlær. Svo var það þannig á skíðamótum að Reykvíkingar, Akureyringar og Ísfirðingar voru sér og það hvíldi mikil leynd yfir því hvað var verið að bera undir skíðin.
Að sama skapi voru skíðabuxurnar einnig vand með farnar. Snjórinn festist gjarnan við þær og því þurfti að skafa buxurnar áður en maður kom inn í hús. Jakobína minnist þess að móðir hennar hafi stundum rétt þeim krökkunum kakóbolla út um eldhúsgluggann svo þau kæmu ekki með snjóinn inn fyrir.
Á þessum tíma voru engin sérstök keppnisföt. Skíðafötin á ólympíuleikunum voru gæruúlpa og hvít peysa með V-hálsmáli. „Við kepptum ekkert í því, þetta var svo ljótt.” Hún bætir við að konur máttu ekki vera í buxum á þessum árum en undantekning var gerð fyrir skíðaíþróttina eingöngu.
Jakobína hefur unnið til 19 íslandsmeistaratitla en hún leit aldrei á það sem neitt stórt afrek.
„Þetta var bara svona.” Að eigin sögn var hún í raun leidd af stað í þessa vegferð og þurfti til að byrja með að sannfæra hana að byrja að æfa. Hún gerði sér aldrei í hugarlund að ná þessum árangri.
Fyrir ólympíuleikana kom austurrískur skíðaþjálfari og var með þeim í viku fyrir vestan að undirbúa þau. Á þeim tíma voru þær tvær sem fengu að fara í braut með strákunum en það var aldrei gerð nein sérstök braut fyrir konur.
„Þess vegna sköruðum við fram úr og vorum með forskot á hinar stelpurnar … Við æfðum ekki svo mikið í braut í gamla daga heldur æfðum oftast bara frjálst.”
Brautin á vetrarólympíuleikunum 1956 á Ítalíu var því stórfelld breyting frá því sem hún var vön; þetta voru brattari fjöll og lengri brautir. Allt stærra í sniðum, margt fólk og því mikil viðbrigði fyrir ísfirska mær.
Hún var fyrst íslenskra kvenna að keppa á vetrarólympíuleikum. Því miður, segir hún. Það hefði verið betra að hafa stelpur með sér.
„Einhver kona þurfti að vera fyrst til að ryðja brautina.”
Einhver kona þurfti að vera fyrst til að ryðja brautina

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir er 26 ára skíðakona. Hún segir brosandi að það er bara gott markmið að stefna á 19 titla eins og Jakobína. „Af hverju ekki. Það væri draumurinn.” Hún segir vetrarólympíuleikana í Peking 2022 hafa verið eitt það stærsta sem hún hefur gert.
Hún var oft samferða eldri systur sinni upp í Bláfjöll þegar hún sjálf var enn of ung. Þá renndu hún sér niður brekkurnar á þotu. Að eigin sögn áttaði hún sig nokkuð seint á því að hún vildi verða afrekskona á skíðum. Þá hafði hún prófað sig áfram í allskyns íþróttum; æfði listskauta, handbolta og líka fótbolta á sumrin. Og þegar hún var um fjórtán ára gat það gerst að hún var bæði að keppa á listskautum snemma morguns og þurfti svo að keyra beint upp í Bláfjöll á skíðamót. Það var þá sem hún ákvað að velja skíðin fram yfir skautana.
Hún tók sín fyrstu skíðaskref í Ömmu Mús í Bláfjöllum. En þar var hún eitt sinn tekin á teppið fyrir að bruna í barnabrekkunni og þá færði hún sig bara yfir í brattari brekkurnar. Í samanburði við Jakobínu þá ólst Hólmfríður beinlínis upp í skíðalyftunum.
Skíðakeppnir snúast að einhverju leyti enn um búnaðinn og þekkir Hólmfríður það vel hvað það getur ríkt mikil leynd um það hvað sumar þjóðirnar eru að vaxa undir skíðin. Í dag skiptir keppnisgallinn höfuðmáli. Hún segir að þau eru líka að mæla hversu mikið loft síast í gegnum búningana. „Sérhvert smáatriði skiptir máli.“ Spandex-efnið var algjör bylting þegar kom að því að lágmarka loftmótstöðu.
Flest þau sem eru afreksíþróttafólk á skíðum búa erlendis. Veðrið er svo stór áhrifaþáttur í þessari íþrótt og á Íslandi eru ekki sérlega há fjöll. En barna og unglingastarfið er þó mjög öflugt hér á landi segir Hólmfríður. Hér eru vel menntaðir þjálfarar og mikið lagt í að kenna krökkunum grunninn. En þegar fólk er komið í fullorðins flokk og ætlar að verða afreksíþróttamanneskja þá þarf að leita út fyrir landsteinana.

Þegar þær tala um tilfinninguna sem þær upplifa þegar þær eru á skíðum þá talar þær einni röddu. „Þetta er ein besta tilfinning í heimi.”
Jakobína saknar þess. Veturnir voru þannig að hún skíðaði sérhvern dag og notaði þau einnig sem farartæki. Hún renndi sér til að mynda niður að kirkjugarðinum á Ísafirði, stakk skíðunum þar inn fyrir og fór svo að versla fyrir móður sína. Svo fór hún á skíðunum aftur heim.
Hólmfríður segir tilfinninguna vera eins og að fljúga. Og hún vonar að sem flest fái að upplifa það í sínu lífi. Þegar hún byrjaði vildi hún bara fara á stökkpalla og leika sér. Hún ítrekar að einn stærsti þátturinn er þessi leikur þegar maður er barn og að helst ekki taka þessu of alvarlega. Jakobína bætir við: „Já og svo er líka mikilvægt að fara hratt og taka stórar beygjur.”
Þegar Jakobína er spurð út í það hvernig ráð hún myndi gefa yngri kynslóðinni þá bendir hún á Hólmfríði og segir: „taka hana til fyrirmyndar,” og hlær. „Svo er annað heilræði bara að æfa sig vel og njóta þess.”
Þær horfa út um gluggann og Hólmfríður segir að þó það komi brjálað veður þá þýðir ekkert að fara bara inn í skála. Hún heldur áfram því að góðu dagarnir á skíðum eru bara svo góðir og sannarlega þess virði.
„Við vorum úti í öllu veðri, þar voru engar lyftur sem lokuðu þegar það var vetrarhríð,” segir Jakobína. Hólmfríður ítrekar að börnum er ekki pakkað í bómul í þessari íþrótt, stundum eru -10 gráður og það er kalt og krakkarnir spyrja: „Hvenær er hádegismatur? Hvenær förum við inn?” En sama hvernig viðrar þá er haldið áfram.
Að lokum minnist Jakobína þess þegar hún og vinir hennar gengu fram að Seljalandsdal, en það voru þau oft vön að gera eftir áramót. Þá gengu þau með þungu tréskíðin á öxlunum öll saman í hóp. Hún segir að sem betur fer gátu þau verið í skíðaskónum þar sem snjórinn var oft „djúpur upp í klittur.” Þau tóku með sér bakpoka, nesti og svefnpoka og svo voru þau með kolamola til setja í eldavélina. Strákarnir tóku einnig timbur þar sem verið var að innrétta skálann. Þetta gerðu þau til þess að geta notið laugardagsins og sunnudagsins á skíðum og gistu í skálanum þar sem var aðstaða til að elda.
Þau vöknuðu svo snemma daginn eftir og fóru upp í fjall. Seinna renndu þau sér svo alla leið út á Ísafjörð en það gátu þau gert alveg fram í maí og skíðuðu þá alveg niður í gras.
Vetrarólympíuleikarnir 2026 í Cortina d'Ampezzo á Ítalíu eru framundan og eru Hólmfríði efst í huga. 70 árum eftir að Jakobína steig þar á stokk fyrst íslenskra kvenna gæti Hólmfríður fengið tækifæri til að keppa aftur fyrir Íslands hönd og gera það sem hún hefur ástríðu fyrir. Þær halda áfram að skoða gamlar myndir og Jakobína óskar Hólmfríði að lokum góðs gengis. Hún hlakkar til að fylgjast með henni.

