Ása Steinars
Útivist úti á landi
„Útivistar-einangrun" á Ólafsfirði
Útivist og hreyfing hefur sjaldan verið jafn mikilvæg og núna. Við Íslendingar erum heppin með víðáttuna allt í kringum okkur og því stutt að fara fyrir flesta og stunda útivist í ósnortinni náttúru í fersku lofti.
Við heyrðum í Ásu Steinars, einum reyndasta ferðalangi landsins, um hvers konar útivist hún mun stunda næstu daga og hvað er gott að hafa í huga til að koma sér af stað. Ása ákvað að fara í svokallaða „útivistar-einangrun" í bústað á Ólafsfirði, þar sem hún nýtur nærliggjandi náttúru á gangi eða skíðum.
Við brýnum fyrir fólki að fara varlega og fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hverju sinni og fylgjast vel með á covid.is. Mælst er gegn því að stunda útivist í hóp, forðast skal alla snertingu og mikilvægt að virða fjarlægðarmörk milli einstaklinga sem á vegi verða. Við brýnum einnig á mikilvægi þess að skoða vandlega veður- og snjóflóðaspár á vedur.is áður en haldið er af stað í ferðir á fjöllum.
„Útivist og nálægð við náttúruna hefur alltaf haft mikla þýðingu fyrir mig og enn frekar núna þegar dagarnir eru farnir að lengjast og það er bjart fram á kvöld. Ég varð mjög húkt á útiveru frekar ung en ég held að ég hafi snemma áttað mig á því hvað það gerði mér gott. Ég næ að hreinsa hugann, allar áhyggjur hverfa og ég er meira til staðar í augnablikinu.
Nú þegar við lifum á óvissutímum þá tel ég að það sé enn mikilvægara að stunda útivist og mögulega bæta við nýjum áhugamálum eða hæfileikum. Auk þess vera hugmyndarík þegar kemur að hreyfingu og halda sér í formi."
„Ég reyni að fara út sama hvernig viðrar, ef það er slæmt veður þá reyni ég að fara í göngutúr og ljósmynda landslagið. Allt verður miklu áhugaverðara fyrir vikið. Ég fann nýlega tvær gamlar filmuvélar sem ég hef ákveðið að prófa mig áfram með og reyna á sköpunargáfuna."
„Fyrir Norðan er ótrúlega fallegt landslag, endalaus víðátta og Tröllaskaginn með mikið af mögnuðum fjöllum með sjóinn í baksýn sem er áhugavert myndefni.
Einnig þarf ekki að leita langt frá Reykjavík til að finna flotta staði, eins og Hvalfjörðinn. Hann er gleymd perla og þar eru alls kyns fossar og gönguleiðir. Á sumrin finnst mér fátt betra en góð fjallganga og að kanna nýjar leiðir."
Tröllaskagi er án efa besta fjallaskíðasvæði landsins.
„Þessa dagana reyni ég að nýta snjóinn og stunda fjallaskíði. Þá eru sett skinn undir skíðin, gengið upp og síðan brunað niður. Það er fátt sem jafnast á við góðan dag á fjöllum og að skíða niður ósnortnar brekkur í náttúrufegurðinni. Ísland á vorin er algjör paradís fyrir fjallaskíðamenn og það stefnir í flott tímabil eftir snjóþungan vetur."
„Á fjallaskíðum opnast möguleiki á að komast lengra inn í óbyggðirnar, jafnvel á fáfarna tinda. Tröllaskagi er án efa besta fjallaskíðasvæði landsins, með sín háu fjöll, mikla snjó og firði. Ólafsfjörður er í uppáhaldi þessa dagana, þar sem þú getur gengið beint úr bænum."
„En það er að mörgu að huga þegar það kemur að fjallaskíðaferðum, þar sem hættur geta leynst í fjalllendi að vetrar- og vorlagi. Ein helsta hættan eru snjóflóð* og það þarf ákveðna þekkingu til að vita hvaða leiðir eru öruggar, hvernig snjólagið er og snjóþekja. Gangan er frábær hreyfing, sem kemur manni í hörku form eftir nokkur skipti, það getur tekið um þrjár til fjórar klukkustundir að komast upp á topp og síðan er skíðað niður."
„Til að byrja á fjallaskíðum er gott að vera þokkalega vanur fyrst á skíðum í brekkum. Gott viðmið er að vera öruggur í bröttum brekkum og að geta skíðað niður hvort sem það er hart eða mjúku færi.
Fjallaskíði eru töluvert þykkari en venjuleg skíði og oft er maður með bakpoka sem er um 6 kg, sem geymir snjóflóðabúnað, nesti og vatn. Það reynir á svolítið annað jafnvægi. En það er auðveldlega hægt að prófa sig áfram og fara stuttar ferðir til að byrja með."
„Ef ég er heima í Reykjavík og langar í dagsferð þá keyri ég venjulega upp í átt að Snæfellsnesi, sem er annað svæði sem hentar einstaklega vel fyrir fjallaskíðatúra eða annars konar útivist.
Þar er hægt að velja á milli mishárra tinda, eða jafnvel ganga Snæfellsjökul á góðum degi. En einnig er hægt að velja leiðir við Esjuna, eins og Móskarðshnjúka."
„Ég reyni að vera alltaf vel útbúin, enda er mikilvægt að velja réttan klæðnað í útivistina.
Þegar ég geng upp, þá geng í yfirleitt í tveimur lögum - ull og Gore-Tex - en bæti svo á lögum því hærra sem ég fer og því kaldara sem það verður. Yfirleitt er mjög heitt í byrjum og það er mikilvægt að reyna að komast hjá því að svitna of mikið því þá kólnar maður hratt."
„Ég vel mér alltaf ullar lag innst, ásamt ullar-húfu og vettlinga til að halda mér hlýju en einnig hleypa svita út frá líkamanum.
Ráðlegging: Þegar ég er á fjallaskíðum þá tek ég yfirleitt með auka ullarbol því oft svitnar maður yfir daginn og kólnar þá hratt þegar maður stoppar á toppnum og þá er mikilvægt að vera með þurran bol til skiptanna."
„Þar næst pakka ég í töskuna ullarpeysu eða Primaloft/Powerfill jakka til að klæða mig í, yfirleitt uppi á topp og þegar stoppað er fyrir matarpásur, eða ef það hvessir. Þriðja lagið er síðan skel, og þar mæli ég með Gore-Tex.
Það er fátt sem toppar góðan dag úti í náttúrunni á Íslandi. Fyrir mér er dagur á fjöllum sem endar í sumarbústað alvöru lífsgæði."
Snæfellsnes hentar einstaklega vel fyrir fjallaskíðatúra eða annars konar útivist
Förum varlega en hreyfum okkur
Leiðarvísir að utanvegahlaupum, göngum og almennri útivist á Íslandi