Útilykt

66°Norður og ilmhúsið Fischersund hafa sameinað krafta sína og skapað ilmheim innblásinn af íslenskri útilykt. Þetta áhugaverða samstarf var opinberað á Hönnunarmars, 19.-23. maí 2021.

Vindur í fangið úr öllum áttum
Skafrenningur smýgur innundir úlpukraga
Snjóperlur á frosnum lopavettlingum
Berjablá tunga og höfuð hvílir í mjúku lyngi
Sláttuvél í fjarlægum garði
Óskreytt jólatré fýkur niður gangstétt í sjávarrokinu
Hélaðar rúður, veðurfréttir og miðstöðin í botni

Fischersund x 66°Norður er þverfaglegt hönnunarverkefni þar sem markmiðið var að búa til ilm fyrir 66°Norður og ákveðinn upplifunarheim í kringum ilminn, en hluti af verkefninu er einnig tónverk sem unnið er af Jónsa í Sigurrós, Sindra og Kjartani Holm.

Jónsi í Sigurrós er einn af þeim sem stendur að fyrirtækinu Fischersund sem sérhæfir sig í upplifun og skynjun, en hann og systur hans, Lilja, Ingibjörg og Sigurrós, stofnuðu Fischersund saman árið 2017. Því er óhætt að tala um alvöru fjölskyldufyrirtæki.

„Í þessu samstarfi er í raun sögð saga af Íslandi og íslenskri náttúru í gegnum lykt og tónlist. Hugmyndin var að fanga þessa fersku lykt sem fólk finnur þegar það kemur inn eftir góða útiveru, lykt sem er erfitt að skilgreina nákvæmlega en allir kannast svo vel við“.

Ilmurinn Útilykt er handgerður hér á Ísland og unnið úr íslenskum handtíndum lækningajurtum og jurtaolíum sem gerir þetta að hreinni ilmvöru lausa við öll óæskileg aukaefni. Innblásturinn er sóttur í íslenska náttúru og íslenska útilykt en vindurinn, sjórinn, snjórinn, nýslegið gras og útivera lék stærstan þátt í innblæstrinum þegar hönnunarteymi 66°Norður og Fischersunds unnu að því að þróa lyktina.

66°Norður og Fischersund leggja bæði mikla áherslu á sterka sögufrásögn í sínu starfi og í þessu samstarfi er í raun sögð saga af Íslandi og íslenskri náttúru í gegnum lykt og tónlist. Hugmyndin var að fanga þessa fersku lykt sem fólk finnur þegar það kemur inn eftir góða útiveru, lykt sem er erfitt að skilgreina nákvæmlega en allir kannast svo vel við.

Það er langt ferli að búa til ilm en byrjað er á hugmyndavinnu og leitast eftir því að finna út hvaða sögu á að segja. Systkinin sækja mikið í sínar eigin ilm minningar sem þau búa oftast sameiginlega yfir og þaðan er grunnurinn að hugmyndunum lagður. Þegar hugmyndin er komin tekur þróunarvinnan við og þau ákveða í sameiningu hvaða ilmnótur eigi að vera í hverjum ilmi.

Eftir það tekur Jónsi við keflinu og býr til uppskriftir og í framhaldinu velja þau eina uppskrift sem þau þróa áfram.

„Áður en endanlegi ilmurinn er tilbúinn erum við búin að kasta á milli okkar uppskriftinni ótal sinnum, breyta og bæta, úða yfir alla í kringum okkur, fara í endalausa hringi þangað til að allt smellur“.

Fischersund x 66°Norður

Útilykt ilmur

„Tónlist og ilmur er bæði mjög abstrakt fyrirbæri. Ef þú lest lýsingu á ilm eða tónverki veist þú samt ekkert hvernig það er í raun, þú þarft að upplifa það. En bæði fyrirbærin eru beintengd við tilfinningar okkar. Þú kemst ekki hjá því að finna fyrir áhrifum ilms eða tónlistar“.

Fischersund x 66°Norður

Vínylplata