Prins Póló
Hver þarf ekki haustpeysu í desember?
Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló, var einhver dáðasti tónlistarmaður Íslands seinni ára. Textar hans hittu sérstaklega vel í mark hjá landanum sem átti auðvelt með að spegla sig í hversdagslegum yrkisefnum Prinsins. Svavar greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum og féll frá nú í septemberlok. Svavar Pétur var einstaklega iðinn, allt fram á síðasta dag, og í samstarfi við 66°Norður hannaði hann flíspeysu, „haustpeysuna í ár,“ sem kemur í verslanir 66°Norður þann 1. desember. Allur ágóðinn af sölunni rennur til Krafts, styrktarfélags ungs fólks með krabbamein og minningarsjóðs Prins Póló.
„Autumn Sweater“
Rætur verkefnisins liggja allt aftur til lítils viðburðar sem fór fram fyrir tíu árum á Óðinstorgi í Þingholtunum. Svavar var mikill aðdáandi bandarísku hljómsveitarinnar Yo La Tengo og lagsins „Autumn Sweater“ með sömu hljómsveit. Innblásinn af laginu, haustinu og peysunum sem setja svip sinn á þessa dumbungslegu árstíð, bjó hann til Facebook viðburð með nokkurra klukkutíma fyrirvara sem snérist um að fá fólk til að mæta á torgið í sinni uppáhalds haustpeysu. Það mættu ekki nema tíu manns, en þessi fallega stund sat í Prinsinum sem ákvað að endurvekja Haustpeysuna árið 2021. Eins og var hans von og vísa þurfti aðeins að bæta í og því hannaði hann sína eigin haustpeysu í samstarfi við fatahönnuðinn Sigrúnu Höllu Unnarsdóttur. Samstarfsmaður og vinur Svavars, Björn „Borko“ Kristjánsson, gerði ábreiðu af lagi Yo La Tengo með íslenskum texta.
Haustpeysufögnuðurinn verður haldinn á fjölskyldukaffihúsinu Dal í Laugardal, sunnudaginn 11. desember
Flíkur, lag og viðburður
Haustpeysan 2022 er allt í senn: tvær flíkur, lag og viðburður. Peysan er flíspeysa sem notar þekkt mótíf úr myndheimi Prins Póló, kórónuna. Kórónan kemur einnig út sem eins konar ennisband sem kætir og lýsir upp skammdegið. Samhliða góssinu kemur út Haustpeysulagið 2022, „Ég er klár.“ Lagið er eftir Svavar Pétur en textinn er eftir Skarphéðinn Bergþóruson. Svavar gekk að hálfu frá laginu áður en hann féll frá og svo tóku vinir hans – Hirðin, eins og hann kallaði þessa nánustu vini sína – við keflinu og kláruðu lagið
Eins og í fyrra verður Haustpeysufögnuðurinn haldinn á fjölskyldukaffihúsinu Dal í Laugardal, sunnudaginn 11. desember. Við hvetjum öll til að mæta í sinni fegurstu haustpeysu.