SADA Cooperative er fyrirtæki sem stofnað var af konum á flótta í samstarfi við tyrkneskar konur, með stuðningi UN Women í Tyrklandi. Markmiðið er að efla félagstengsl, atvinnutækifæri og fjárhagslegt sjálfstæði kvennanna sem standa að baki SADA. Samstarf 66°Norður og UN Women á Íslandi mun skapa tekjur fyrir konurnar og stuðlar að áframhaldandi starfsemi SADA Cooperative.
„Tyrkland er það land í heiminum sem hefur hýst lang flest fólk á flótta frá Sýrlandi. Mörg, og sérstaklega konur, hafa átt erfitt með að sjá fyrir sér og komast inn í tyrkneskt samfélag. Frá því að ný stjórn tók völd í Sýrlandi í lok árs 2024, hefur mikill fjöldi fólks snúið aftur heim eftir áralanga dvöl í Tyrklandi. En um 1,2 milljónir sýrlenskra kvenna eru enn meðtímabundna vernd í Tyrklandi,“ segir Sara McMahon, kynningarstýra UN Women á Íslandi.
66°Norður og UN Women á Íslandi heimsóttu Gaziantep í september 2022. Með í för var leikstjórinn Erlendur Sveinsson, sem framleiddi tvær stuttar heimildamyndir þar sem saga tveggja SADA-kvenna er sögð. Fylgst er með Khtem Kujjeh sem flúði heimili sitt í Aleppó, ásamt eiginmanni og tveimur börnum, í upphafi stríðsins. Fjölskyldan dvaldi fyrstu árin í flóttamannabúðum þar sem eiginmaður Khtem lést eftir veikindi. Stuttu síðar fengu hún og börn hennar vernd í Tyrklandi. Khtem var í hópi þeirra Sýrlendinga sem sneru aftur heim skömmu eftir að ný stjórn tók völd í árslok 2024.
Í seinni myndinni er sögð saga Asuman Çiğit, sem er fædd í borginni Kahramanmaraş í suður Tyrklandi. Hún er menntaður félagsráðgjafi og starfaði sem slíkur áður en hún missti vinnuna. Það reyndist henni erfitt að finna aðra vinnu og hún sótti félagsskap og stuðning í SADA.
Markmiðið er að efla félagstengsl, atvinnutækifæri og fjárhagslegt sjálfstæði kvennanna sem standa að baki SADA. Samstarf 66°Norður og UN Women á Íslandi mun skapa tekjur fyrir konurnar og stuðlar að áframhaldandi starfsemi SADA Cooperative.
Verkefnið er styrkt af Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins um þróunarsamvinnu.