Platan sem hverfur
Síðastliðinn maí gaf hljómsveitin Hipsumhaps út plötuna Lög síns tíma og 1. janúar nk. mun platan hverfa út af öllum streymisveitum og aldrei snúa til baka. // Uppfært: Vegna fjölda áskorana kom platan út aftur nú í lok mars 2022 vegna fjölda áskorana og allar streymistekjur renna til BUGL.
Náttúran og umhverfið spilar stórt hlutverk í lífi Fannars, söngvara Hipsumhaps, en honum líður best á Álftanesinu þar sem hann er uppalinn því þar finnur hann ró. Síðastliðinn maí gaf hann út plötuna Lög síns tíma og 1. janúar nk. mun platan hverfa út af öllum streymisveitum og aldrei snúa til baka. Með þessu vill Fannar sýna að það er ekkert sem varir að eilífu, líkt og jöklarnir okkar. Þangað til munu aðdáendur geta keypt rafrænt eintak af plötunni og hlustað á tónlistina hans áfram. Síðastliðinn 12. nóvember flutti hann lög af plötunni fyrir fullum Eldborgarsal í Hörpu og var það í síðasta skipti sem hann mun flytja lögin.
Fannar Ingi Friðþjófsson er 30 ára gamall tónlistarmaður og kennari af Álftanesinu. Hann segir margt sameiginlegt með þessum störfum, en bæði hlutverkin fela það í sér að bera ábyrgð og miðla uppbyggilegum skilaboðum á skapandi hátt. Hann byrjaði ungur að semja og áhugi hans á tónlist jókst með árunum, en það tók hann 10 ár að finna rétta listamannanafnið og láta vaða.
Platan Lög síns tíma skartar jöklamyndum eftir RAX, Ragnar Axelsson ljósmyndara
,,Afi minn gaf mér fyrsta gítarinn minn þegar ég var 12 ára. Ég byrjaði síðan að skrifa texta þegar ég var í menntaskóla og út frá textanum urðu til lög sem ég samdi á gítar. Það tók mig síðan mörg ár að kýla loksins á það að gefa út tónlist, og verða síðan tónlistarmaður. Ég var búinn að vera í 10 ár að finna rétt nafn á tónlistina sem ég var að gera, það er svo mismunandi hvernig tónlist ég geri því ég fíla svo margt.”
Í dag gefur hann út tónlist undir nafninu Hipsumhaps, en hann segir að orðið nái nákvæmlega utan um tónlistina sem hann gerir sem er - allskonar. Hipsumhaps er frasi sem lýsir hlutum sem eru handahófskenndir og óútreiknanlegir. Fannar hefur gaman af íslenska tungumálinu og orðaleikjum, en þannig kom nafn plötunnar Lög síns tíma út frá orðatiltækinu að vera barn síns tíma. Þar vill hann fanga tíðarandann og þá hluti sem eiga sinn stað í okkar menningu og tíma, en verða svo ekki til lengur.
,,Það er erfitt að skilgreina tónlistina sem ég geri, eins og nafnið gefur til kynna. Ég hugsa að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi jafnvel tengt og túlkað lögin á sinn hátt.”
Þema plötunnar er árið 2021 og þroskasaga hans í gegnum þann tíðaranda sem er í dag. Innblásturinn fyrir textana fær hann þegar hann er á flakkinu og leyfir huganum að reika til að ná utan um tilfinningar sem verða til, en önnur tónlist hefur áhrif á útsetningu laganna.
,,Mig langaði alltaf að gera eitthvað sem tengist náttúrunni, því að niðurstaða mín í gegnum árin og sköpun á tilfinningaríkri tónlist er sú að hún er æðri en við og okkar tilfinningar. Tilfinningar eru ekki staðreyndir.”
Þess vegna lætur hann plötuna hverfa, en þannig minnir hann okkur á að hlutir séu ekki varanlegir líkt og jöklarnir okkar. Platan skartar jöklamyndum eftir RAX, Ragnar Axelsson ljósmyndara. Fannari finnst skipta máli að allir finni fyrir því að fólk geti tekið þátt og lagt sitt af mörkum fyrir náttúruna, hvort sem það er tengt mataræði eða neyslu. Einstaklingar geta haft áhrif með því að kasta fram spurningum á fyrirtæki þegar kemur að fleiri skrefum í átt að frekari sjálfbærni.
,,Mér finnst skipta máli að hlusta á það sem rannsóknir eru að segja okkur. Ég hef breyst með árunum og aukið mína vitneskju á umhverfismálum, en ég reyni að sýna ábyrgð í mínu lífi. Mér finnst skipta máli að búa til lausnamiðaða menningu í kringum umhverfismálin og sjá tækifæri í þeim í stað þess að upplifa ótta eða flýja vandamálið, jafnvel hundsa það.”
Það er líklega ekki margt tónlistarfólk sem lætur plötur hverfa af streymisveitum, en Fannar segir að það sé erfitt fyrir íslenskt tónlistarfólk að reiða sig á tekjur frá streymisveitunum. Helstu tekjulindir tónlistarfólks hafa þá verið tónleikahald sem hefur verið erfitt vegna Covid.
,,Fólk er í raun að gefa tónlistina sína með því að setja hana inn á streymisveitur. Plötusala skilur því eftir stórt skarð sem á enn eftir að fylla, en ég trúi því að það hljóti að koma einhver lausn. Tónlistariðnaðurinn verður að fá betri fjárhagslega aðstoð ef listin á að þrífast áfram.”
Fannar er bjartsýnn fyrir framtíðinni og trúir að stafrænar vörur verði leiðandi í náinni framtíð hvað varðar útgáfur.
Hér eru nánari upplýsingar um plötuna og hljómsveitina.
Föstudagur fyrir jöklana okkar
Norður tímarit
Í 75 ár hefur fjölskyldan fylgst með hreyfingum jökulsins í Reykjarfirði ár hvert og sent niðurstöðurnar til Jöklarannsóknarfélags Íslands; fyrst var það föðurbróðir Þrastar, Guðfinnur, og svo Þröstur Nú hefur Ragnar tekið við keflinu og er að mæla jökulsporðinn í annað sinn.
Föstudaginn 26. nóvember mun 25% af allri sölu í vefverslun renna til Jöklarannsóknarfélags Íslands.
Með Ocean Missions og Ásu Steinars siglum við saman í að átt að sjálfbærni.
Fylgstu með NORÐUR sögum með því að skrá þig á póstlistann og fylgja okkur á Instagram