Í aðdraganda jóla langar okkur að kynnast fólkinu í okkar næsta nágrenni og þeirra jólahefðum. Þau Hans og Fríða, fiðlusmiður og bókmenntafræðingur, eru hjón sem búsett eru í Garðabæ og það var lífstíll þeirra og hvernig þau nálgast tilvistina sem heillaði okkur. Alveg eins og 66°Norður leggja þau áherslu á sköpunargleði, endingu, og gæði. Þau huga vel að umhverfinu og sínu nánasta, sem er gott að hafa í huga í aðdraganda jóla, þegar allt á það til að fara á fullt, og verslun og neysla er í hámarki.
Hver er uppáhalds jólahefðin ykkar?
Fríða: „Mín uppáhalds jólahefð er að kaupa jólatré sem nær alveg upp í loft - sama hvað það hefur verið hátt til lofts. Það þarf að vera lifandi tré, helst íslenskt rauðgreni, gamaldags tré með gamaldags skrauti eins og í kvikmynd Ingimars Bergman. Tréð færir okkur jólailminn, sem dugar yfirleitt þangað til það fer út eftir þrettándann, því við vökvum samviskusamlega á hverjum degi.“
Hans: „Uppáhalds jólahefðin mín er þögnin á undan jólamatnum í útvarpinu, því þá er útvarpað þögn allra landsmanna. Mér finnst það eitthvað svo djúpviturt.“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
Hans: „Ég held að það sé bara þessi fyrstu jól sem maður man eftir frá því ég var svona 4 - 5 ára, það eru sterkustu jólaminningarnar.“
Fríða: „Mín sterkasta jólaminning er líklegast þegar ég var heima í húsinu okkar í Lúxemborg að bíða eftir Hansa og dóttur okkar sem fóru að kaupa jólatré. Ég stóð í glugganum á annarri hæð þegar þau komu heim og jólatréð sem þau höfðu keypt var svo stór að það náði frá gangstéttinni og alla leið upp til mín. Það þurfti náttúrulega að taka einhvern einn og hálfan meter neðan af því til að koma því inn. En þetta er mjög sterk og falleg jólaminning því barnið, sjö ára, var svo sæl með að hafa fengið að velja sér stærsta tréð á jólatréssölunni og fara með það heim.“
Uppáhalds vara frá 66°Norður?
„Úlpan mín, hún er örugglega rúmlega tuttugu ára gömul. Hún þolir allt og er enn í fínu standi. Ég er reyndar búinn að láta taka hana pínulítið í gegn, en þetta er bara eins og fasteign.“
– Hans Jóhannsson
Fríða: „Ég á eina uppáhaldsflík sem ég nota mikið úti í garði. Hún er líka orðin tuttugu ára. Þetta er jakkapeysa með rennilás og prjónaáferð. Ég var svo ánægð með þessa hönnun því þetta var fyrsta kvenflíkin sem ég sá sem var hönnuð með símavasa á brjóstinu svona eins og á karlmannsflíkum. Mér fannst svo flott að einhver hönnuður áttaði sig loksins á því að konur eru líka í vinnu og þurfa að vera með símann sinn á sér vandræðalaust. Mér þótti mjög vænt um að sjá þessa útfærslu - jafnvel þótt þessi vasi sé í dag alltof lítill fyrir snjallsíma.“
Hvað finnst þér skemmtilegast við jólamánuðinn?
Hans: „Mér finnst skemmtilegast að sjá hvernig ljósið kviknar í andlitinu og augnaráði í litlu barni á jólunum. Það er bara einhver galdur.“
Fríða: „Jólamánuðurinn getur náttúrulega verið allskonar og stundum stressandi því það er bara allt mögulegt í gangi í lífinu - því lífið heldur áfram þótt það komi jól! Þannig að fyrir mig er hápunktur jólamánaðarins alltaf aðfangadagurinn sjálfur þegar atið er búið: Að vakna snemma í myrkrinu, fara í kirkjugarðinn með mömmu minni og bræðrum að vitja látinna ættingja. Fá svo hangikjötsflís heima hjá mömmu í hádeginu áður en ég dríf mig heim að elda. Svo stend ég allan daginn í eldhúsinu með rás 1 á og elda jólamatinn, fólk er að koma og fara og þiggja kannski smá púrtvínstár við eldhúsborðið. Svo kemur þessi stóra stund, þegar allir eru komnir í sitt fínasta púss klukkan sex. Og það er stífaður hvítur borðdúkur og tauservíettur á borðinu, kristalsglös, silfur og kertaljós, af því við erum að halda þessa stórkostlegu hátíð fyrir okkur sjálf og okkar nánustu. Það er ekkert verið að hugsa um annað en að njóta þess að vera fjölskylda á eins hátíðlegan hátt og hægt er, rífa upp hvunndagsleikann. Mér finnst þetta alveg stórkostlegur dagur og er alltaf jafn þakklát þegar líður að jólanótt og allir eru sáttir og glaðir.“
Explore gifts that last
Kaldi
Ullarhúfa með gervifeldi
Skipholt
Ullarpeysa (Unisex)
Eldey
Dúnkápa