Í aðdraganda jóla langar okkur að kynnast fólkinu í okkar næsta nágrenni og þeirra jólahefðum. Þau Hans og Fríða, fiðlusmiður og bókmenntafræðingur, eru hjón sem búsett eru í Garðabæ og það var lífstíll þeirra og hvernig þau nálgast tilvistina sem heillaði okkur. Alveg eins og 66°Norður leggja þau áherslu á sköpunargleði, endingu, og gæði. Þau huga vel að umhverfinu og sínu nánasta, sem er gott að hafa í huga í aðdraganda jóla, þegar allt á það til að fara á fullt, og verslun og neysla er í hámarki.
Hver er uppáhalds jólahefðin ykkar?
Fríða: „Mín uppáhalds jólahefð er að kaupa jólatré sem nær alveg upp í loft. Sama hvað það er hátt til lofts, mér finnst það rosalega skemmtilegt. Og það þarf að vera lifandi tré og það þarf að vera rauðgreni. Gamaldags jólatré með gamaldags skrauti eins og í myndum eftir Ingmar Bergman. Það kemur allavega mjög góð lykt í húsið þegar það er alvöru tré sem við vökvum samviskusamlega á hverjum einasta degi þangað til það fer út.“
Hans: „Uppáhalds jólahefðin mín er þögnin á undan jólamatnum í útvarpinu, því þá er útvarpað þögn til allra landsmanna. Mér finnst það eitthvað svo djúpviturt.“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
Hans: „Ég held að það sé bara með fyrstu jólunum sem maður man eftir. Fyrstu minningarnar eru örugglega 4-5 ára, það held ég að séu sterkustu minningarnar.“
Fríða: „Ég held að mín sterkasta jólaminning sé sú þegar ég var heima í Lúxemborg að bíða eftir Hansa og dóttur okkar sem fóru að kaupa jólatré, og ég var upp á annarri hæð í húsinu og þau keyptu jólatré sem var svo stórt að það náði frá götunni upp á aðra hæð í húsinu, og það þurfti náttúrlega að taka næstum einn og hálfan metra neðan af því til að koma því inn en það var mjög sterk og falleg jólaminning. Hún var fjögurra ára; hún var svo ánægð með tréð, hún hafði fengið að velja stærsta tréð í búðinni og fara með það heim.“
Uppáhalds vara frá 66°Norður?
„Úlpan mín, hún er örugglega meira en tuttugu ára gömul. Hún er bara eins og skriðdreki og er bara ennþá í fínu standi. Ég er reyndar búinn að láta taka hana pínulítið í gegn, en þetta er bara eins og fasteign.“
– Hans Jóhannsson
Fríða: „Ég á eina uppáhalds flík og ég nota hana hérna úti í garðinum, hún er líka 25 ára gömul. Það voru svona jakkapeysur með vösum sem var með áferð eins og þær væru prjónaðar, með hettu og rennilás að framan. Og ég var svo ánægð með þessa hönnun því þetta var fyrsta flíkin sem ég sá í heiminum, sem var hönnuð s.s. á konu og var með vasa fyrir síma, ég hafði bara séð það á karlmannsflíkum, og ég var svo ánægð að einhver hönnuður hafi áttað sig á því að konur eru líka í vinnu og þurfa líka að vera með síma á sér. Þannig mér þótti mjög vænt um að sjá þennan fítus á svona flík.“
Hvað finnst þér skemmtilegast við jólamánuðinn?
Hans: „Mér finnst skemmtilegast að sjá hvernig kviknar á andlitinu og augnaráði í litlu barni á jólunum. Það er bara einhver galdur, mjög magískt.“
Fríða: „Jólamánuðurinn fyrir mér getur náttúrulega verið allskonar, stundum stressandi, og svo er allt mögulegt í gangi bara í lífinu: lífið heldur áfram þó það komi jól! Þannig fyrir mig er hápunktur jólamánaðarins alltaf aðfangadagurinn allur: vakna snemma í myrkrinu, fara í kirkjugarðinn í labbitúr með mömmu minni og bræðrum mínum og vitja látinna ættingja. Það er hangikjöt hjá mömmu heima í hádeginu. Koma síðan heim og standa allan daginn í eldhúsinu, með Rás 1 á, og elda jólamatinn og fólk að koma og fara, kannski smá púrtvínstár í flösku á eldhúsborðinu. Svo bara þessi stund, þegar allir eru komnir í sitt fínasta púss klukkan sex. Og það er hvítur stífaður dúkur og hvítar stífaðar sérvíettur á borðinu, og silfrið og kristallinn, og það er verið að halda þessa stórkostlegu hátíð í raun og veru bara fyrir sig og sína nánustu, það er ekki verið að sýnast fyrir umheiminum, það eru allir bara einhvernveginn að njóta þess að vera fjölskylda á eins hátíðlegan hátt og hægt er. Mér finnst þetta alveg stórkostlegur dagur.“
Kaldi
Ullarhúfa með gervifeldi
Skipholt
Ullarpeysa (Unisex)
Eldey
Dúnkápa