Þessi síða styður ekki vafrann þinn. Við mælum með að þú skiptir yfir í Edge, Chrome, Safari eða Firefox.

Frí heimsending á öllum pöntunum yfir 20.000 kr.

Framlengdur skilafrestur á keyptum jólagjöfum frá 1. nóvember 2025

Hægt er að skila jólagjöfum til 31. janúar 2026

    United States IS / ISL
    United States DK / ENG
    United States EU / ENG
    United States UK / ENG
    United States US / ENG

Notið afsláttarkóðann WELCOME10 til að fá 10% afslátt af fyrstu pöntuninni.

Karfa 0

Til hamingju! Pöntunin þín á rétt á fríum sendingarkostnaði. Þú ert ||upphæð|| frá ókeypis sendingu.
Engar fleiri vörur í boði til kaups

Vörur
Paraðu saman við
Er þetta gjöf?
Samtals Ókeypis
Áætluð afhending: 2-5 dagar
Sendingarkostnaður og afsláttarkóðar eru reiknaðir út við greiðslu
1989
2020

Föstudagur fyrir jöklana

Föstudaginn 28. nóvember munum við í sjöunda skiptið láta 25% af sölu okkar í vefverslun renna til málefna tengdum jöklum. Í ár munum við styrkja Jöklarannsóknarfélag Íslands í fimmta skiptið.

Jöklarnir eru stór hluti af Íslandi og við viljum halda því þannig.

Þær breytingar sem eru að gerast í heiminum eru mjög sýnilegar okkur hér í norðrinu. Við finnum vel hvernig jöklarnir okkar eru að gefa eftir með hækkandi hitastigi. Við hjá 66°Norður viljum nota daginn til að vekja athygli á þessu máli og leggja okkar af mörkum til að sporna gegn þessari þróun.

Undanfarin ár höfum við gefið hluta af sölu okkar til Landverndar, Votlendissjóðs og Jöklarannsóknafélags Íslands, sem allir hafa það að markmiði að vernda náttúruna á einn eða annan hátt. Í ár munum við aftur styrkja Jöklarannsóknafélag Íslands.

25% af allri sölu í vefverslun föstudaginn 28. nóvember 2025 mun renna til Jöklarannsóknafélags Íslands.

Föstudagurinn 28. nóvember mun einkennast af miklum kaupum. Við viljum líkt og síðustu sex ár tileinka þann dag jöklunum, sem er áþreifanleg táknmynd hvernig umhverfið okkar mun erfast milli kynslóða. Við þurfum öll að hugsa okkur vel um áður en við kaupum nýjar flíkur eða hluti.

Jöklarannsóknafélag Íslands var stofnað árið 1950, en markmið þess er að stuðla að jöklarannsóknum og fræðslu um jöklana okkar og nágrenni. Samvinna vísindamanna og sjálfboðaliða er grundvöllur félagsins sem hefur skilað miklum árangri og eflt jöklarannsóknir hér á landi enn frekar. Félagið hefur stundað mælingar á hopi og framskriði jökulsporða allt frá upphafi.

Hero image

Kaupum fyrir næstu kynslóð

Orsakir offramleiðslu í fataiðnaðinum margar en ljóst er að fatnaður úr lélegum efnum sem endist illa á þar hlut að máli. Í ljósi þessa viljum við nýta komandi daga, þegar freistandi afslættir munu fylla allt, til að vekja fólk til umhugsunar um endingu og nýtingu almennt. Nýttu þér dagana til þess að kaupa það sem þú þarft og getur notað árum saman.

Markmið okkar hjá 66°Norður hefur alltaf verið að skapa endingargóðan fatnað sem nýtist við margvíslegar aðstæður. En betur má ef duga skal. Hvað getum við sem samfélag gert til að sporna við fatasóun?

Hero image

Við getum lært margt af fyrri kynslóðum þegar kemur að því að nýta eigur okkar betur. Hvað hefðu amma og afi gert eða jafnvel langamma og langafi? Hvað einkenndi hlutina sem þau urðu sér úti um, hvort sem það var flík eða eitthvað allt annað?

Í ár fögnum við hjá 66°Norður 99 ára afmæli sem vekur ekki síður upp spurningar um lifnaðarhætti landsmanna í árdaga Sjóklæðagerðarinnar, hvernig fólk leitaðist við að velja föt úr vönduðum efnum og hámarka síðan líftíma þeirra með því að gera við þær þegar svo bar undir. Og einmitt þar hefur metnaður 66°Norður alltaf legið. Allt frá upphafi hefur saumaverkstæðið okkar sinnt viðgerðaþjónustu af krafti. Óhætt er að segja að þessi metnaður sé enn leiðarstefið á saumaverkstæðinu okkar í Miðhrauninu sem tekur við ríflega 4.000 flíkum á ári til viðgerðar – eða meira en tíu flíkum á dag.


Lestu meira um viðgerðaþjónustuna okkar hér.

Hero image
„Úlpan mín, hún er örugglega rúmlega tuttugu ára gömul. Hún þolir allt og er enn í fínu standi. Ég er reyndar búinn að láta taka hana pínulítið í gegn, en þetta er bara eins og fasteign.“


– Hans Jóhannsson

Nokkur atriði til að hafa í huga fyrir næstu kaup

  • Áður en þú bætir nýrri flík í fataskápinn, íhugaðu hvort hún nýtist þér fyrir ólík tilefni og til lengri tíma og jafnvel einhverjum öðrum síðar.  
  • Skoðaðu endilega úrval notaðra 66°Norður flíka hjá t.d. Regn, Visteyri og á loppumörkuðum.   
  • Athugaðu hvort hægt sé að gefa eldri flík nýtt líf með viðgerð. 

Föstudagur fyrir jöklana

Síðan 2019 höfum við ekki tekið þátt í Svörtum föstudegi. Þess í stað höfum við lagt fram 25% af sölu okkar í vefverslun til að fjármagna íslensk umhverfissamtök sem öll eiga það sameiginlegt að vernda náttúruna okkar.

Á þeim fjórum árum sem við höfum stutt Jöklarannsóknarfélag Íslands hafa samanlagt safnast um 7,5 milljónir króna í þessu mikilvæga samstarfi. Með styrknum hefur JÖRFÍ getað sinnt verkefnum sem venjulega fá lítið eða ekkert rannsóknarfé, en eru engu að síður grunnstoðir í því að mæla og skilja framtíð íslenskra jökla. Styrkurinn hefur meðal annars gert félaginu kleift að safna gögnum á minni jöklum sem annars hefðu ekki verið mældir, opna ljósmyndasafn félagsins fyrir almenningi með myndum frá fyrstu rannsóknarleiðöngrum á jökla landsins, og sýna þróun jökulsporða allt frá því mælingar hófust um 1930. Myndasafnið varpar ljósi á ferðabúnað jöklamanna og – kvenna og jafnframt frumstæðum aðstæðum þeirra til ferðalaga á jöklum landsins. Styrkurinn hefur einnig komið að góðum notum fyrir fræðslu- og upplýsingafundi fyrir almenning og miðla nýjustu þekkingu um jökla og loftslagsbreytingar á aðgengilegan hátt.

Samstarf 66°Norður og JÖRFÍ

2021-2022

Jöklarannsóknafélagið gerði út leiðangra til þess að endurvekja afkomumælingar á Tindfjallajökli og Eyjafjallajökli. Í stuttu máli var mæld hver snjósöfnun yfir veturinn var með því að bora í gegnum vetrarlagið í maí og hversu mikil sumarbráðnunin var á haustmánuðum, en þar með fæst mat á á ástandi jökulsins. Markmiðið með verkefninu var að auka skilning á afkomu smærri jökla á Íslandi og stuðla að aukinni vitundarvakningu um jöklabreytingar í hlýnandi loftslagi. Tækifærið var einnig nýtt og tekið upp myndefni sem sýnir hvernig afkomumælingarnar eru framkvæmdarr að vori og hausti. Niðurstöður verkefnisins voru kynntar á haustfundi Jöklarannsóknafélagsins auk þess sem að stutt myndband var búið til með efni úr ferðunum.

2022-2023

Að undanförnu hefur verið safnað sögulegum ljósmyndum af jöklum landsins og m.a. unnið að skönnun ljósmynda í eigu Jöklarannsóknafélagsins. Ljósmyndirnar veita innsýn í breytingar sem orðið hafa á jöklum landsins undanfarna áratugi og allt frá því um 1900. Hluti af samstarfinu gekk út á að heimsækja valda staði og endurtaka ljósmyndirnar. Samanburður á myndum sýnir á einfaldan og áhrifaríkan hátt hvernig jöklar hafa rýrnað og eru mikilvægur þáttur í að skrásetja breytingar á jöklunum okkar. Valin ljósmyndapör verða birt á jöklavefsjánni (islenskirjoklar.is) og samfélagsmiðlum Jöklarannsóknafélagsins og 66°Norður.

Eyjafjallajökull | 2000 - 2023

Tindfjallajökull | 2000 - 2023

Spurningar og svör frá JÖRFÍ

Hvernig nýtist svona styrkur í starfsemi JÖRFÍ?

Styrkurinn hefur verið JÖRFÍ ómetanlegur. Með honum höfum við getað sinnt verkefnum sem venjulega fá lítið eða ekkert rannsóknarfé, en eru engu að síður grunnstoðir í því að mæla og skilja framtíð íslenska jökla. Styrkurinn hefur m.a. gert okkur kleift að safna gögnum á minni jöklum sem annars yrðu ekki mældir, gera ljósmyndasafn félagsins aðgengilegt fyrir almenning en ljósmyndirnar eru frá fyrstu rannsóknaferðum á jökla landsins, sýna einnig stöðu jökulsporða þegar mælingar hófust á þeim uppúr 1930. Myndasafnið varpar ljósi á ferðabúnað jöklamanna og – kvenna og jafnframt frumstæðum aðstæðum þeirra til ferðalaga á jöklum landsins.

Styrkurinn hefur einnig komið að góðum notum fyrir fræðslu- og upplýsingafundi fyrir almenning og miðla nýjustu þekkingu um jökla og loftslagsbreytingar á aðgengilegan hátt.

Hvaða mælingar hafa verið framkvæmdar með tilstilli styrksins hingað til, og hvaða þýðingu hefur það?

Mælingarnar eru hluti af mikilvægum gagnagrunni sem sýnir hvernig smærri jöklar bregðast hraðar við hlýnun en þeir stærri. Þær gefa vísindasamfélaginu betri innsýn í þróun minni jöklanna og hjálpa til við að skilja hvaða breytingar eru framundan. Dæmi um verkefni, þar sem jöklar sem hafa verið afkomumældir í samstarfinu er Eyjafjallajökull, Tindfjallajökull, Torfajökull, Hofsjökull eystri og Þrándarjökull. Þau gögn fara inn í íslenskan gagnabanka og eru jafnframt aðgengileg á jöklavefsjánni (islenskirjoklar.is) sem félagið heldur úti í samstarfi við margar stofnanir.

Með því að skanna og skrásetja myndasafn félagsins (sem telur þúsundir ljósmynda) hafa myndast ný tækifæri til þess að endurgera gamlar jöklamyndir, sem með samanburði lvarpa jósi á þá miklu rýrnun sem hefur átt sér stað á jöklum landsins. Svona myndaraðir henta sérstaklega vel til þess að sýna almenningi hversu miklar breytingar hafa orðið á landslagi á Íslandi á 100 árum.

Hvað þarf að gerast til að varðveita jöklana (í stóru myndinni)?

Hægja þarf verulega á hlýnum heimsins, og það gerist aðeins með miklum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Þrátt fyrir það er mjög líklegt að margir minni jökla eigi sér ekki von, þar sem hlýnun er þegar orðin það mikil, að erfitt er að snúa núverandi þróun við.

Hvernig lítur landslag jöklanna út eftir 99 ár ef fram heldur sem horfir?

Íslenskra jökla bíður áframhaldandi rýrnun vegna loftslagsbreytinga. Spálíkön sýna að framhaldið ræðst að miklu leyti af því hversu hratt tekst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu áratugum. Líkanreikningar fyrir Vatnajökul sýna að fram til ársins 2100 verður rúmmálstap hans um það bil 20%, óháð sviðmyndum fyrir loftslagsbreytingar. Eftir það skiptir miklu máli hversu mikil losun gróðurhúsalofttegunda verður. Ef hlýnun takmarkast við 2°C við lok aldarinnar, í samræmi við markmið Parísarsamningsins, gæti Vatnajökull fundið nýja jafnvægisstærð í hlýrra loftslagi með um 30–60% af núverandi rúmmáli. Eldri líkanreikningar fyrir Hofsjökul og Langjökul benda til að 2°C hlýnun gæti orðið til þess að þeir hverfi alveg á um 200−300 árum. Eins og komið hefur fram munu minni jöklarnir hverfa fyrstir. Minni áhersla hefur verið á að meta framtíða þeirra á Íslandi, oft vegna þess að ófullkomnari gögn eru til um þá en stærri jöklana.

Hvaða jöklar eru á hættustigi í dag að hverfa? Og hafa fleiri jöklar horfið síðan OK?

Fyrirséð er að fleiri nafnkunnir jöklar muni hverfa á næstu áratugum og meðal þeirra eru Hofsjökull eystri, Þrándarjökull, Torfajökull og Kaldaklofsjökull. Frá aldamótunum 2000 hafa tugir lítilla jökla horfið, margir þeirra í fjöllunum á Tröllaskaga og Flateyjarskaga og á aðrir lítt þekktir jöklar í fjalllendi Austfjarða t.a.m.

Um jöklabreytingar

Jöklar hér á landi tóku að hörfa hratt eftir 1995 og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing og skýr vitnisburður um hlýnandi loftslag. Nokkrir smájöklar hafa horfið á þessu tímabili og ljóst að margir jöklar munu hverfa á næstu áratugum. Frá aldamótunum 2000 hafa íslenskir jöklar minnkað um 850 km2, sem samsvarar um einum Langjökli, en frá því um 1900 höfum við hins vegar tapað því sem samsvarar þremur Langjöklum. Jökullón hafa myndast framan við fjölmarga jökla og þau stækka eftir því sem jöklarnir hörfa.

Sjálfboðaliðar Jöklarannsóknafélagsins sinna mælingum á fjölmörgum jökulsporðum víðs vegar um land. Margir af stærri skriðjöklum landsins hafa hopað um mörg hundruð metra á síðustu 2 árum, sem dæmi má nefna að Dyngjujökull hefur hörfað um 500 m, Síðujökull um 300 m, Breiðamerkurjökull og Hagafellsjöklar um 250 m og Þjórsárjökull um 100 m.

Svínafellsjökull: 1940 - 2019

1940
1940
2019
2019

Sultartungnajökull: 1991 - 2023

1991
1991
2023
2023