Listamaðurinn Þórsteinn Svanhildarson og arkitektúrneminn Irena Sveinsdóttir eru bæði fædd og uppalin í Reykjavík en eiga jafnframt bæði ættir að rekja norður á land. Börn þeirra eru Sól, fjögurra ára, og Flóki, þriggja ára. „Við erum þessi klassíska íslenska vísitölufjölskylda. Allt okkar líf er hér í 101 Reykjavík og nágrenni, hér er alltaf líf og fjör og það er einmitt það sem veitir okkur innblástur,“ segja miðbæjarhjónin sem spjölluðu við okkur um fjölskyldulífið, jólastemninguna og allt þar á milli.
Hver er uppáhalds jólaminningin þín?
Irena: Ég hef svo sem aldrei verið mikið jólabarn, en eftir að við byrjuðum að upplifa jólin í gegnum krakkana þá finnst mér þessi tími ótrúlega dýrmætur. Maður er spenntur að fara með þeim að hitta jólasveininn, næstum spenntari en þau – maður er eiginlega líka að upplifa jólabarnið í sér núna.
Hvað er órjúfanlegur hlutur af jólunum?
Irena: Samveran, maður er miklu meira í kringum fjölskyldu og vini. Mér finnst þessi samvera á aðfangadagskvöld og jóladag sérstaklega mikilvæg. Ég gæti ekki haldið jólin án fjölskyldunnar.
Þórsteinn: Mér finnst líka mjög skemmtilegt að fara á jólaballið í leikskólanum hjá krökkunum. Þau eru svo stolt að sýna manni allt þar og það er dansað í kringum jólatréð. Svo höfum við fjölskyldan tekið röltið um bæinn á Þorláksmessu og það er geggjað.
Irena: Já, mér líður eins og ég nái aðeins meira að slaka á og njóta eftir að við eignuðumst börnin.
Hvað er á óskalistanum?
Irena: Mig er eiginlega alveg hætt að langa í eitthvað dót en það er náttúrlega alltaf gaman að fá eitthvað fallegt inn á heimilið, eða upplifanir, gjafabréf í flug eða eitthvað svoleiðis.
Þórsteinn: Það sem er á óskalistanum okkar frá 66°Norður er föðurland á krakkana. Við notum föðurlandið daglega yfir haust- og vetrartímann. Og svo er ekkert verra að eiga svoleiðis sjálfur á köldustu dögunum.
Irena: Síðan eru krakkarnir með skýra ósk. Þegar það snjóaði svo svakalega í október, öllum að óvörum, þá fórum við niður í geymslu og sóttum snjóþotu sem ég átti þegar ég var lítil. Við tókum hana með okkur þegar við sóttum krakkana í leikskólann og það var algjör ævintýraferð fyrir þau – á 30 ára snjóþotu – en það var því miður eiginlega bara pláss fyrir annað þeirra í einu. Þannig að þau eru búin að óska sér þess að fá nýjar snjóþotur.